„Orðlaus yfir þessum velvilja“

Slökkviliðsmenn þrífa þök á Kirkjubæjarklaustri.
Slökkviliðsmenn þrífa þök á Kirkjubæjarklaustri. Reuters

„Ég er orðlaus yfir öllum þessum velvilja og öllu þessu yndislega fólki sem býr í þessu landi,“ segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri á Kirkjubæjarklaustri, en vel hefur gengið að þrífa á Klaustri. Leikskólinn var opnaður í morgun.

„Við opnuðum leikskólann og bæjarskrifstofurnar í morgun og nú verið að þrífa skólann og íþróttamiðstöðina. Ef við náum ekki að opna skólann á morgun þá gerist það á mánudaginn.“

Bílar frá sjö slökkviliðum eru að störfum á Klaustri og á bæjum í nágrenninu. Sprautað er yfir þök, í rennur og á stéttar. Eygló sagði að það þyrfti fyrst að þrífa utandyra áður en hægt væri að þrífa innandyra.

Eygló sagði slökkviliðin legðu áherslu á að þrífa hjá bændum og eins fyrirtækjum í ferðaþjónustu. „Við stefnum að því að koma ferðaþjónustunni í gang um helgina.“

Eygló sagði að íbúar á Klaustri og í nágrenni hefðu fengið ómetanlega aðstoð við þrif og uppbyggingu eftir náttúruhamfararnir.

„Maður hefur heyrt talað um hjálpsemi og dugnað, en að upplifa þetta og standa og þurfa að þiggja aðstoðina; þetta er ólýsanlegt. Ég fæ hreinlega gæsahúð,“ sagði Eygló.

Íbúar á Klaustri eru ánægðir með veðrið, en þar rigndi í morgun. „Það var þægileg rigning í gær, en nú rignir meira. Veðrið er eins og ég hafi pantað það sjálf. Fyrst kom hífandi rok sem blés mikið af öskunni á brot og svo kom rigning. Ég hefði ekki viljað fá þetta í öfugri röð. Þetta er með ólíkindum.“

Ekki er að bæta í ösku á Klaustri núna vegna rigningarinnar, en Eygló sagðist reikna með að það yrði öskufjúk í sumar því gríðarlega mikið af ösku er á jöklinum.

Eygló Kristjánsdóttir sveitarstjóri.
Eygló Kristjánsdóttir sveitarstjóri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert