„Það er ekki hægt að segja að ríkisvaldið með sín efnahagslegu stjórntæki, sé að leggja sig fram um að tryggja kjarasamningana sem nýverið hafa verið samþykktir,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á heimasíðu sinni í dag. Hann segir að ríkisstjórnin sé þvert á móti að eyðileggja kjarasamningana með aðgerðaleysi sínu gagnvart hækkandi verðbólgu og lækkandi gengi krónunnar.
Einar segir að teflt hafi verið á tæpasta vað með kjarasamningunum og að mjög margir eigi mjög mikið undir því að þeir gangi upp. Þar hjálpi ekki „skattaóð ríkisstjórn“ og „fullkomið skilningsleysi“ gagnvart uppbyggingu í landinu. „Kjarasamningarnir eru þess vegna eins konar fjöregg; brothætt fjöregg og miklu veldur um örlög þess hvernig ríkisvaldið heldur á spilum sínum,“ segir Einar.
Heimasíða Einars K. Guðfinnssonar