Tóku stöðu gegn heimilunum

Garðabær úr lofti.
Garðabær úr lofti. Rax / Ragnar Axelsson

„Þetta vekur auðvitað mikla reiði on vonbrigði. Vinnubrögð stjórnvalda eru svo öfugsnúin. Við lítum svo á skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna sýni að stjórnvöld tóku stöðu með fjármálakerfinu gegn heimilunum," segir Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, form. Hagsmunasamtaka heimilanna.

„Skjaldborgin er slegin um fjármálakerfið. Skýrslan varpar ljósi á að skjaldborgin gat aldrei orðið, vegna þessa að það var í raun búið að framselja hana. Það var búið að semja um að hún gæti aldrei risið," segir Andrea Jóhanna og boðar að samtökin og félagsmenn þeirra muni ekki sitja aðgerðalausir ef stjórnvöld rétti ekki heimilunum hjálparhönd.

Ekki samið við þessa stjórn

„Við ætlum að hrinda af stað undirskriftasöfnun í næstu viku. Okkur í Hagsmunasamtökum heimilanna ásamt þorra þjóðarinnar er orðið algerlega ljóst að við þessa ríkisstjórn verður ekki samið um að ná fram réttlátum leiðréttingum á lánum vegna þeirrar eignatilfærslu og forsendubrests sem heimilin urðu fyrir í efnahagshruninu.

Diplómatísk og sanngjörn samningaleið var okkar nálgun frá upphafi, því við töldum að þjóðin öll þyrfti að nálgast endurreisnina með þjóðarsátt í huga. En sú leið er ekki fær með sjúkum leikreglum „Gamla Íslands" sem stjórnvöld standa vörð um. Það er enginn vilji til þess að horfast í augu við það að öll heimili landins urðu fyrir miklu tjóni sem Hagsmunasamtök heimilanna telja að enn hafi ekki verið leiðrétt að fullu og þurfi að leiðrétta.

Það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar að brotaþolendum væri sendur reikningurinn en lögbrjótar fái skaðabæturnar. Þetta er nú að gerast með aðstoð alls stjórnkerfisins, dóms- löggjafar og framkvæmdavaldsins í heild sinni sem aðstoðar bankana við að fá bætur fyrir ólöglega samninga og markaðsmisnotkun og svik við viðskiptavininn sem viðgengist hefur árum saman."

Hún segir að stjórnvöld hefðu betur hlustað á viðvaranir samtakanna. „Við lögðum til einfalda og hraðvirka aðgerð strax í upphafi hrunsins, að leiðrétta öll veðlán heimilanna með almennum hætti með einni niðurfærslu í þann höfuðstól sem lánið var í byrjun árs 2008 og sett yrði 4% þak á verðbætur og síðan yrði verðtrygging afnumin í skrefum. Við vöruðum við því að ef ekki væri farið í eina fljóta aðgerð myndi hagkerfið allt líða og endurreisnin taka lengri tíma.

Við vöruðum við ólögmæti lánanna. Við vöruðum við því að þær leiðir sem farnar væru við að hjálpa fólki væru ýmist illa framkvæmanlegar og tímafrekar, óréttlátar og óskilvirkar. Við vöruðum við samdrætti í neyslu og samdrætti hagkerfisins í heild. Við vöruðum við þeim óvinsældum sem bankakerfið bakaði sér og glötun á trausti. Við vöruðum við atvinnuleysi. Við vöruðum við fólksflótta frá landinu, sérstaklega ungs menntaðs fólks. Við vöruðum við samdrætti í skatttekjum sem einni afleiðingu," segir hún og bendir á að hagtölur sýni ljóslega fram á að því miður hafi þessi aðvörunarorð ræst.

Á að vera öllum ljóst

Hún rökstyður mál sitt svo:

„Við vöruðum við því að bankakerfið mundi tapa meiru af þeirri leið sem var svo farin heldur en að fara í almennar leiðréttingar fyrr en seinna. Það hefur verið farið eins vitlaust í málin og mögulegt var og landið mun ekki rísa á ný fyrr en heimilin verða endurreist og fólk upplifir réttlæti í því sem gert er, þetta snýst nefnilega um réttlæti gagnvart hinum almenna borgara sem var grandalaust peð í rántafli fjármálakerfisins. Fólk upplifir núna einungis svik á svik ofan, bæði vegna fyrrum ráðamanna og núverandi stjórnar og það eygir ekki von um réttlátt samfélag. Þessi glapræði og skammsýni mun kosta okkur áratug að jafna okkur, það ferli er bara rétt að byrja.

Það er að renna upp ljós fyrir samtökunum núna og fyrir þjóðinni allri að skjaldborgina átti aldrei að slá um heimilin nema að örlitlu og veiku leiti. Skjaldborgin var slegin um fjármálakerfið um leið og ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að semja við kröfuhafa gömlu bankanna um að endurheimt yrði sem allra mest af útlánum og þeir fengju hluta af þeim ágóða. Þetta var gert jafnvel þrátt fyrir þann forsendubrest sem fólk varð fyrir í lánasamningum sínum og með þessum samningi hrundi grundvöllur fyrir skjaldborg um heimilin.

Það er augljóst að slíkir samningar og skjaldborgin margumtalaða fara ekki saman, nema gert sé ráð fyrir því frá upphafi hve stór hluti af afslætti lánasafnanna hefði átt að ganga til lántakenda. Okkur hefði þótt eðlilegast að allur afslátturinn hefði gengið beint áfram í leiðréttingu á lánin. Þetta eru ein af mörgum stórum mistökum sem hafði mátt fyrirbyggja með heilbrigðri skynsemi og heildrænni sýn á samfélagið í heild sinni, að endurreisa þyrfti heimilin og atvinnulífið, en ekki eingöngu fjármálakerfið.

Við ætlum okkur ekki að líða stjórnvöldum þessi vinnubrögð og ofbeldi gagnvart fólkinu í landinu, við tökum stöðu með heimilunum, fólkinu til varnar. Við erum tilbúin sem félagasamtök, samtakamáttur fólksins, til að taka slaginn og gera okkar besta til að slá skjaldborg um heimilin. Við vonum að fólk sé tilbúið með okkur í þennan slag, en til þess þarf að gerast félagi, skrá sig með okkur á heimilin.is, því slagurinn verður ekki ókeypis og hann verður ekki skammvinnur.“


Hjá umboðsmanni Alþingis

Andrea Jóhanna segir beðið eftir áliti umboðsmanns Alþingis.

„Við höfum nú þegar sent ábendingu til umboðsmanns Alþingis ásamt mjög vel unninni kvörtun til ESA varðandi gengistryggðu lánin og lögleysuna sem sett var fram af Alþingi og leyfir afturvirka útreikninga. Sú lögleysa stangast á við bæði íslensk lög og Evróputilskipanir er varða neytendarétt. Eins höfum við sent innanríkisráðherra sömu ábendingu um meinbugi í þessum sömu lögum [151/2010].

Við munum síðan senda aðra ábendingu til Umboðsmanns Alþingis sem varðar þá ágalla sem við höfum komist að með okkar rannsókn á verðtryggðu lánunum, en okkur virðist sem reiknireglur Seðlabanka Íslands með að uppreikna höfuðstól láns í hverjum mánuði standist ekki skoðun þegar borið er saman við lög [38/2001] um vexti og verðtryggingu. Auk þess teljum við að um mjög flókna fjármálaafurð sé að ræða og augljósan forsendubrest sem við bendum á líka í þessu sambandi. Við erum að undirbúa prófmál er varðar verðtryggð lán vegna þessa,“ segir hún.

Undirskriftasöfnun að fara í gang

Andrea Jóahanna segir undirskriftarsöfnun með kröfu um leiðréttingar á lánasamningum heimilanna verða hrundið af stað í næstu viku.

„Það sem við vöruðum við hefur allt ræst og við teljum eina meginástæðu vera þá að lánin voru ekki færð niður í raunvirði. Menn búa ekki til verðmæti með því að skrá háar tölur í tölvur og á pappíra, það eru bara loftbólur. Menn þurfa að komast með fæturnar á jörðina og átti sig á hvað raunveruleg verðmæti eru. Menn þurfa að átta sig á hvað hvetur fólk til dáða og menn þurfa að átta sig á að heimilin í landinu eru grunnstoðin sem allt annað byggir á. Heimilin og fólkið eru raunverulegu verðmætin fyrir landið okkar og samfélagið.

Það þarf engan sérfræðing til að sjá það að kaffæring heimilanna í skuldum dregur úr slagkrafti hagkerfisins. Þetta var aldrei spurning um einhverja flókna hagfræði, þetta eru engin geimvísindi. Þetta var alltaf spurning um heilbrigða skynsemi.“


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert