Baðst afsökunar á Falun Gong-máli

Falun Gong-liðar mótmæltu er forseti Kína kom til Íslands sumarið …
Falun Gong-liðar mótmæltu er forseti Kína kom til Íslands sumarið 2002. mbl.is/Þorkell

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagðist á Alþingi í dag geta fyrir hönd ríkisstjórnarinnar beðið þá, sem komu hingað til lands árið 2002 vegna heimsóknar forseta Kína, afsökunar á meðferð sem þeir sættu.

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, að ljóst væri að íslensk stjórnvöld hefðu brotið gegn málréttindum, mál- og tjáningarfrelsi Falun Gong liða, sem komu til landsins á þessum tíma, það hefðu Persónuvernd og umboðsmaður Alþingis staðfest. Spurði hún Össur hvort ekki væri tímabært að íslensk stjórnvöld biðjist afsökunar á framferði sínu gagnvart þessu fólki.

Össur sagði alveg víst, að þetta muni ekki endurtaka sig á meðan núverandi stjórn situr. Engum verði meinaður réttur til að tjá sig og koma skoðunum á framfæri svo framarlega sem ekki væri um að ræða samtök á lista yfir alþjóðleg glæpasamtök.

„Ég get, fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar, héðan úr þessum stóli, beðið þá sem þá komu og urðu fyrir brotum af þessu tagi, afsökunar," sagði Össur.  Hann sagði st hafa lýst því yfir áður, að þarna hefði verið farið út fyrir það sem heimilt var. „Ég er reiðubúinn fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar að biðja þá afsökunar sem fyrir urðu á sínum tíma."

Margrét fagnaði þessu og hvatti ríkisstjórnina alla til að biðjast formlega afsökunar á málinu. „En þetta var frábært framtak, finnst mér," sagði hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka