Bílalánin misjafnlega dýr

Bílalánin eru misjafnlega dýr.
Bílalánin eru misjafnlega dýr. Ómar Óskarsson

Fram kemur í úttekt Raunvísindastofnunar sem unnin var fyrir Umboðsmann skuldara að Landsbankinn, Íslandsbanki, Arion banki, Byr og Drómi reikna húsnæðislán með sama hætti. Þá mun úttektin leiða í ljós að Drómi og Avant reikni bílalán með sama hætti en að SP-fjármögnun, Lýsing og Íslandsbanki reikni bílalán hins vegar með öðrum hætti sem gefi nokkuð hærri eftirstöðvar.

Lagastofnun Háskóla Íslands og lagadeild Háskólans í Reykjavík báðust undan því að taka þetta verkefni að sér vegna anna, að því er fram kom í máli Umboðsmanns skuldara á blaðamannafundi í dag.

Kom fram í máli Ástu Sigrúnar Helgadóttur, lögfræðings og Umboðsmanns skuldara, að hún myndi á næstu dögum kynna greinargerð frá embættinu vegna þeirrar skýrslu sem Raunvísindastofnun hefur nú lagt fram.

Kristján Jónasson og Stefán Ingi Valdimarsson unnu úttektina fyrir Raunvísindastofnun Háskólans.

Í tilkynningu Umboðsmanns skuldara segir að helsti munurinn á aðferðafærði fjármálafyrirtækjanna sé að „flest fjármálafyrirtækin leggja vaxtavexti við höfuðstól einu sinni á ári. Þrjú síðasttöldu fyrirtækin [SP-fjármögnun, Lýsing og Íslandsbanki] leggja hins vegar vaxtavexti við höfuðstól bílalána við hvern áfallin gjalddaga. Mismunurinn á þessum aðferðum virðist geta numið nokkrum prósentum af eftirstöðvum. Ef bílalánið var tekið fyrir 5-6 áum er munurinn líklega á bilinu 3-5% af upprunalegum höfuðstól. Af 3 milljón króna bílaláni gæti munað 100-150 þúsund krónum. Ef lánið var tekið síðar er munurinn minni en ef lánið var tekið fyrr er munurinn meiri.

Munurinn á aðferðafræði fjármálafyrirtækjanna byggir á mismunandi skilningi þeirra á lögunum og hvernig standa eigi að útreikningi. Umboðsmaður skuldara leitaði til Lagastofnunar Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, en hvorugur aðilinn sá sér fært að veita álit um rétta túlkun laganna að svo stöddu.“

Þá kom fram í máli Kristjáns að í lögunum sé litið svo á að meðhöndla eigi hverja greiðslu frá lánveitenda til lántaka við vaxtaútreikninga. „Nettóniðurstaðan verður síðan annað hvort skuld sem stendur eftir á uppgjörsdegi eða inneign lántaka hjá lánveitenda á þessum sama degi.“ 

Í tilkynningu frá Umboðsmanni skuldara segir að dæmin sem voru send til fjármálafyrirtækja hafi annars vegar verið rúmlega 15 milljóna króna húsnæðislán, tekið 6. júní 2006 og hins vegar tæplega 3 milljóna króna bílalán, tekið 24. janúar 2006. Fjármálafyrirtækin voru beðin að um að endurreikna þessi lán annars vegar miðað við að sami aðili hefði skuldað hvort lán allan lánstímann og hins vegar miðað við að nýr skuldari hefði tekið við húsnæðisláninu 2. maí 2008 og að nýr skuldari hefði tekið við bílaláninu hinn 2. ágúst 2007. 

Greinargerð Raunvísindastofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert