Verulega dró úr gosóróanum í Grímsvötnum í gærkvöldi og í nótt að sögn jarðeðlisfræðings hjá Veðurstofu Íslands. „Það dregur smátt og smátt úr þessu,“ segir Gunnar B. Guðmundsson í samtali við mbl.is.
Hann segir að óróahviður mælist þó enn. Í nótt hafi líklega orðið kvikusprengingar á gosstöðvunum. Það líði hins vegar ávallt lengra á milli óróahviðanna sem mælist. Þá segir Gunnar að líklega sé enn sé suða á svæðinu og búast megi við gassprengingum.
„Öll áhrifin eru þarna í kringum eldstöðina.“
Gunnar bendir á að ekki hafi komið upp nein aska úr Grímsvötnum frá því í fyrrinótt, þ.e. sem hafi náð einhverjum hæðum. Síðan þá hafi lítið sem ekkert mælst á ratsjá. „Þetta er bara í nágrenni eldstöðvarinnar. Það getur enn sprungið þar í kring, en það fer ekkert mikið upp fyrir fjallið.“
Spurður um jarðhræringar þá segir hann að engir jarðskjálftar mælst í eldstöðinni sjálfri síðustu daga.
Þá er fólk hvatt til þess að halda sig fjarri Grímsvötnum. „Það geta alltaf komið einhverjar sprengingar í gígunum,“ segir Gunnar. Um nokkra gíga sé að ræða sem raði sér upp á öskjubarminum. Ómögulegt sé að geta sér til um það hvar næsta sprenging verði. „Þetta getur gerst svo snöggt,“ segir Gunnar og ítrekar að enn sé hætta fyrir hendi.
Aðspurður segir Gunnar að ekki séu líkur á hlaupi í bili. Ekki sé hægt að útiloka neitt en skv. nýjustu mælingum þá sé ekki búist við stóru hlaupi á næstunni.
Menn megi hins vegar búast við öskufjúki áfram þegar það þorni, sem gæti angrað íbúa fram eftir sumri.
Áfram verður þó fylgst grannt með eldstöðinni.