Forsvarsmenn Hrafnistu í Kópavogi segja að lyfjaþjófnaður hafi verið kærður til lögreglunnar. Segir í tilkynningu að við reglubundið innra eftirlit hafi fyrir nokkru orðið vart við óeðlilegra rýrnun á tilteknum lyfseðilskyldum lyfjum í ákveðnum lyfjaflokkum hjá stofnuninni.
Fram kemur að í samráði við öryggisfyrirtæki, sem vinni náið með stjórnendum Hrafnistu í málum sem þessum, hafi verið fylgst mjög nákvæmlega með birgðahaldi heimilisins á ákveðnu tímabili.
„Leiddi eftirlitið til þess að grunur um saknæmt athæfi, beindist að ákveðnum starfsmanni heimilisins. Í kjölfar fundar með viðkomandi og trúnaðarmanni, var lögreglu falin rannsókn málsins. Jafnframt hefur Landlæknisembættinu og Lyfjastofnun verið tilkynnt um málið samkvæmt vinnuferlum Hrafnistu.
Allir þjófnaðir á Hrafnistuheimilunum varða brottrekstri úr starfi og eru jafnframt tilkynntir lögreglu og öðrum viðeigandi aðilum samkvæmt vinnureglum heimilanna þar um. Starfsmaðurinn hefur þegar látið af störfum.
Þar sem um lögreglurannsókn er að ræða mun Hrafnista ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu,“ segir Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu í tilkynningu.
Fréttastofa RÚV segist hafa heimildir fyrir því að lögreglan hafi handtekið konu á fimmtugsaldri í tengslum við málið.