Nokkurt tjón á túnum

Sauðfé á öskuþöktu túni við Kirkjubæjarklaustur.
Sauðfé á öskuþöktu túni við Kirkjubæjarklaustur. Reuters

Tjón hefur orðið á túnum á bæjum frá Kirkjubæjarklaustri og austur að Kálfafelli. Runólfur Sigursveinsson, búfjárráðanautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, segir að 6-8 cm öskulag sé á túnum þar sem mest sé. Hann óttast að erfitt geti orðið að nýta afrétti til beitar í sumar.

Búfjárráðunautar hafa verið að heimsækja bændur síðan öskufallinu lauk, en þeir ætla að fara á alla bæi frá Klaustri og að Kálfafelli og meta tjón og ráðleggja bændum. Runólfur segir að mismikil aska sé á túnum, en 2,5-5 cm sé mjög algengt, en sumstaðar sé öskulagið 6-8 cm. Hann segir að í öllum tilvikum sé um tjón að ræða fyrir bændur.

Runólfur segir að menn hafi líka áhyggjur af afréttum. Ef þar sé mikil aska, eins og flest bendir til, geti orðið erfitt að nýta afrétti til beitar fyrir sauðfé. Þá verði bændur að treysta meira á beit á láglendi og á túnum.

Runólfur segir að sumir bændur hafi verið byrjaðir að bera á tún þegar gosið hófst bæði kornaðan áburð og húsdýraáburð. Hann segir að áburðurinn muni nýtast þó að mikil aska hafi fallið.

Runólfur segir að skurðir á þessu svæði séu víða hálffullir af ösku og mikil vinna framundan að hreinsa upp úr þeim.

Runólfur segir að bændur hafi í dag og í gær verið að setja út lambfé sem sett var inn þegar gosið hófst. Hann segir best fyrir kindur og lömb að komast út því alls kyns vanhöld verði þegar verið sé að geyma þær inni í þröngum húsum. Runólfur segir að ótrúlega lítið hafi drepist af kindum í gosinu. Á þessu svæði séu 9-10 þúsund kindur, en talið sé að 10-20 kindur hafi drepist vegna gossins. Það sé ekki mikið miðað við það sem gekk á. 

Bændur á Fossum smala fé meðan á öskufallinu stóð.
Bændur á Fossum smala fé meðan á öskufallinu stóð. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert