Sérsveit starfsmanna frá iðnaðarráðuneytinu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Ferðamálastofu fór snemma í gærmorgun vopnuð ryksugum og skúringarfötum til að hjálpa til við að þrífa á Hótel Klaustri, Geirlandi og Hótel Laka.
Þetta kemur fram á vef iðnaðarráðuneytisins í dag. Segir þar að þegar þúsundir tonna af ösku gjósi upp á sekúndu sé hætta á að einhvers staðar þurfi að þrífa. Og þegar ferðamannatímabilið sé étt að ganga í garð sé eins gott að allir leggist á eitt við hreinsunarstarfið svo hægt sé að bjóða ferðamenn velkomna en von sé á fyrstu stóru ferðamannahópunum um helgina.