Steingrímur: Varaði við kreppunni

Steingrímur kemur fram í þættinum Prime Time á RTÉ, Raidió …
Steingrímur kemur fram í þættinum Prime Time á RTÉ, Raidió Teilifís Éireann, sjónvarpsstöð sem er að hluta til í rekstri írska ríkisins.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, ræddi stöðu efnahagsmála á Íslandi í írska viðræðuþættinum Prime Time í gær. Steingrímur hafði þá þegar haldið fyrirlestur um stöðuna í Trinity College í Dyflinni. Hann kveðst hafa varað við fjármálakreppunni.

Viðtalið má nálgast hér en þáttur Íslands hefst eftir 16 mínútur. Hefst fyrri hlutinn á umræðu um rökin með og á móti því að lækka lágmarkslaun á Írlandi, í því skyni að örva atvinnusköpun.

Margt líkt með þjóðunum

Segir Steingrímur margt líkt með Íslandi og Írlandi. Báðar þjóðirnar hafi gengið í gegnum hraðan efnahagsuppgang og horft fram á ofhitnun á fasteignamarkaði með eignabólu.

Síðan hafi efnahagskerfið hrunið með miklum hvelli.

Steingrímur segir að engir góðir kostir séu í stöðunni þegar slíkar efnahagshamfarir ríði yfir. Málið snúist um að velja kostina sem séu minnst slæmir.

„Nú höfum við glímt við kreppuna í tvö og hálft ár og náð umtalsverðum árangri. Það sýnir að það er ljóstýra við enda ganganna. Það verður að berjast í kreppu sem þessari og viðhalda baráttuandanum. Ef gripið er til nauðsynlegra aðgerða kemur umbunin fyrr eða síðar fram í formi efnahagsbata,“ sagði Steingrímur sem einnig greindi stöðuna svo að Ísland hefði fyrst ríkja lent í þeim efnahagshremmingum sem önnur ríki standi nú frammi fyrir.

Óhjákvæmilegt að hækka skatta 

Spurður í hverju hinn beiski kaleikur til að lækna þjóðarlíkamann hafi falist svaraði Steingrímur því til að farin hafi verið blönduð leið niðurskurðar og skattahækkana til að ná fjárlagahallanum niður. Þurft hafi að endurfjármagna bankana og „berjast gegn atvinnuleysi, allt á sama tíma“.

Spurður hvort hann hafi hækkað skatta á línuna (e. across the board) svarar Steingrímur því játandi.

„Það var eina færa leiðin. Það er ekki hægt að leysa vandann með því eingöngu að hækka skatta eða draga út útgjöldum. Ég tel að fara verði blandaða leið.“

Inntur eftir vægi hvors liðar í aðhaldsaðgerðunum svarar Steingrímur því til að  útgjaldahliðin hafi vegið um það bil 55% en skattahliðin 45%.

Færði Steingrímur svo rök fyrir því að þessi leið fæli í sér að hinir efnameiri þurfi að sætta sig við ögn hærri skatta, um leið og þeir sem reiði sig á velferðaraðstoð þurfi að sætta sig við að dregið verði úr aðstoðinni.

„Allir leggja sitt af mörkum hvort sem það kemur fram í sköttum eða niðurskurði.“

Ekki hlustað á aðvörunarorðin

Steingrímur sagði íslenska bankakerfið hafa verið ofvaxið þegar það hrundi.

„Hvarvetna mátti greina merki um að hlutirnir væru ekki að ganga vel... Það var ekki hlustað á þau fáu okkar sem vöruðu við þessu,“ segir Steingrímur.

Á öldum reiðinnar

Rætt er við Elaine Byrne, dósent við Trinity College í Dyflinni, um stöðuna á Íslandi en hún hefur komið hingað til lands og fylgst náið fram framvindu mála eftir efnahagshrunið 2008.

Metur hún stöðuna á Íslandi svo að stjórn Samfylkingar og VG hafi komist til valda „á öldum reiðinnar“. Nú sé sú skoðun hins vegar farin að verða útbreidd að stjórnina skorti hugmyndir til frekari viðreisnar.

Þá er rætt við Patrick Lenain, sérfræðing hjá Efnahags- og framfarastofnuninni í París, OECD, sem bendir á að atvinnuleysi á Írlandi sé með því mesta í Evrópusambandinu. Jafnframt bendir hann á að þegar atvinnuleysi verði mikið sé tilhneigingin sú að það haldist hátt.

Stærri björgunarsjóður í bígerð?

Vikið er að vandræðunum á evrusvæðinu og líkum á því að Grikkir fari í greiðsluþrot. Lýsir Dan O'Brien, sérfræðingur í efnahagsmálum hjá dagblaðinu The Irish Times, yfir þeirri skoðun sinni að neyðaraðstoð ESB og Evrópska seðlabankans hafi mistekist í öllum þeim evruríkjum sem neyðst hafi til að grípa til hennar.

Segir í fréttaskýringu RTÉ að rætt sé um að mun umfangsmeiri aðgerðir þurfi að koma til svo bjarga megi gríska hagkerfinu frá greiðsluþroti. Er rætt um mun stærri björgunarsjóð en lagður hefur verið fram til þessa innan ESB og má af umfjölluninni skilja að horft sé til skuldabréfaútgáfu í ætt við Brady-skuldabréfin sem gefin voru út í Rómönsku-Ameríku á sínum tíma vegna skuldakreppunnar þar. En upphafið má rekja til skuldakreppunnar í Mexíkó.

Þá kemur fram að umfangsmikil niðurfærsla á skuldum gríska ríkisins mundi hafa neikvæð áhrif á markaði í Evrópu og kunna að leiða hærri fjármögnunarkostnaðar írska ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert