Flokkstjórnarfundur í Garðabæ

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, setur fundinn í FG …
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, setur fundinn í FG í dag. mbl.is/Ómar

Niðurstöður á fjórða tug umbótafunda, sem haldnir hafa verið í öllum aðildarfélögum Samfylkingarinnar sl. fimm mánuði, verða lagðar fram á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar, sem fram fer í dag og á morgun.

Þetta er annar flokkstjórnarfundur Samfylkingar á árinu. Þar verður lögð megináhersla á umfjöllun um tillögur umbótanefndar Samfylkingarinnar og eftirfylgni umbótaskýrslunnar frá 4. desember 2010. 

„Alls tóku um 600 manns þátt í fundunum sem haldnir voru í kjölfar útkomu skýrslu og tillagna umbótanefndar Samfylkingarinnar í desember 2010, sem hafði það verkefni að leiða skoðun og umræðu um störf, stefnu, innri starfshætti og ábyrgð Samfylkingarinnar í aðdraganda bankahrunsins.

Flokksstjórnarfundurinn um helgina er skref í umbótaferli sem hófst með skipun umbótanefndarinnar í apríl 2010. Tillögur hennar, rúmlega þrjátíu talsins, tóku til allra lykilþátta flokksstarfs Samfylkingarinnar. Fyrir flokksstjórnarfundinum um helgina liggja fyrir tillögur framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar að málsmeðferð og afgreiðslu á tillögunum, byggt á umsögnum aðildarfélaga flokksins og niðurstöðum fundanna um allt land.
Tillögurnar eru mikilvægur áfangi í umfangsmiklu og metnaðarfullu
umbótastarfi Samfylkingarinnar á öllum lykilþáttum í flokksstarfinu,“ segir í tilkynningu.

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, setur fundinn kl. 12 í dag í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ. 

Að því loknu fjallar Bertil Kinnunen, framkvæmdastjóri jafnaðarmanna í Uppsalaléni í Svíþjóðum, um nýjar áherslur í flokksstarfi sænskra jafnaðarmanna. Margrét S. Björnsdóttir formaður framkvæmdastjórnar gerir grein fyrir megin niðurstöðum umbótafundanna og fylgir eftir tillögum framkvæmdastjórnar um málsmeðferð tillagna umbótanefndar, sem unnið verður með í vinnustofum á flokksstjórnarfundinum áður en þær verða teknar til afgreiðslu.

Varaformaður flokksins Dagur B. Eggertsson lýkur fundinum í dag með
stuttri samantekt.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert