Hreinsa þarf rúmlega 200 íbúðir og íbúðarhús í Skaftárhreppi, auk atvinnuhúsnæðis og útihúsa. Viðlagatrygging Íslands veitir styrk til hreinsunarstarfsins.
Sérfræðingar Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra telja nauðsynlegt að nota tækjabíla til að hreinsa öll hús í Skaftárhreppi þar sem öskufall var mikið á öllu svæðinu. Skaftárhreppur hefur ekki yfir að ráða nægum mannafla til að annast skipulag hreinsunarstarfs og því hefur þjónustumiðstöðin á Kirkjubæjarklaustri tekið að sér að skipuleggja allt sjálfboðaliðastarf á svæðinu og þeirri aðkeyptu þjónustu sem þarf til að koma öllu í eðlilegt horf á ný.
Kemur þetta fram í stöðuskýrslu Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra sem gerð var eftir könnun á aðstæðum á öskufallssvæðinu.
219 íbúðir og einbýlishús eru í Skaftárhreppi, samtals um 29.500 fermetrar að stærð. Mikið atvinnuhúsnæði er að auki. Þannig eru 14-15 þúsund fermetrar hjá ferðaþjónustufyrirtækjum.
Hreinsunarstarf er komið á fullt og vinnur fjöldi slökkviliða og björgunarsveitar að því með tækjum sínum og búnaði, ásamt heimamönnum.
Lagt er til að sá kostnaður sem verður umfram styrk Viðlagatryggingar
Íslands og endurgreiðslu virðisaukaskatts verði greiddur af ríkinu.
Matsmenn Viðlagatryggingar Íslands munu meta bótaskyld tjón á næstunni.
Kostnaður vegna tjóna sem Bjargráðasjóður hefur bætt í atburðum sem þessum verður metinn af ráðunautum og dýralækni. Ekki er ljóst hversu mikill hann verður þar sem enn er óljóst hvaða áhrif askan hefur á gróið land. Í skýrslunni kemur fram að ýmislegt bendir til að áhrif á gróið land séu mun umfangsmeiri en í eldgosinu í Eyjafjallajökli.