Kom flatt upp á okkur

Höfuðstöðvar Saga fjárfestingarbanka voru í yfir 100 ára gömlu húsi …
Höfuðstöðvar Saga fjárfestingarbanka voru í yfir 100 ára gömlu húsi á Akureyri, Gamla barnaskólanum að Hafnarstræti 54. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta er mjög slæm þróun. Við sjáum eftir tveimur fyrirtækjum í sömu vikunni, fyrst útibúi ja.is og svo kemur þetta,“ segir Geir Kristinn Aðalsteinsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, um tilkynningu Saga fjárfestingarbanka um að flytja höfuðstöðvar fyrirtækisins frá Akureyri til Reykjavíkur.

Saga Capital fjárfestingarbanki, eins og fyrirtækið hét í upphafi, var stofnað á Akureyri 2006 og hóf þar reglulega starfsemi árið á eftir. Höfuðstöðvarnar hafa verið á Akureyri og meginhluti starfseminnar þar en undanfarið ár hefur starfsemin verið að færast meira til Reykjavíkur þar sem þjónustusvið fyrirtækisins er. Saga tilkynnti í gær að höfuðstöðvarnar yrðu fluttar á Höfðatorg í Reykjavík og starfsstöðinni á Akureyri lokað á haustmánuðum. 

Þeim starfsmönnum sem eftir voru á Akureyri hefur verið sagt upp störfum.

Geir Kristinn segir að Saga fjárfestingarbanki hafi verið mikilvægt fyrirtæki í bæjarfélaginu. Þar hafi verið öflug starfsemi og góð kynning fyrir bæinn að fyrirtækið skyldi vera með höfuðstöðvar sínar þar. „Við höfum fylgst með þróun mála hjá Saga, vitum að flest af þeirra stærstu verkefnum eru fyrir sunnan. Það kom samt flatt upp á okkur að þeir skyldu ákveða að loka hér. Við horfum á eftir þeim með tárin í augunum.“

Ríkisstjórnin þarf að grípa inn í

„Það er virkilega slæm þróun ef öll starfsemi lendir á þessum eina stað, Reykjavík, og ekki vel komið fyrir landinu ef svo fer,“ segir Geir Kristinn og bætir því við að forsvarmenn Akureyrarbæjar hafi rætt mikið um hvernig hægt væri að spyrna við fótum.

„Við gerum okkar besta í sveitarstjórnunum að efla og auka atvinnu en það er greinilegt að eitthvað meira þarf til. Ég tel að ríkisstjórnin þurfi að grípa inn í þessa þróun með aðgerðum sem stuðla að því að landsbyggðin geti vaxið og dafnað,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert