„Það er betra [fyrir Ísland] að vera þekkt fyrir náttúrufegurð (og hættu) heldur en að vera þekkt sem Wall Street á túndrunni [sem misheppnaðist],“ segir tímaritið The Economist, sem fjallar um eldgosið í Grímsvötnum og viðbrögð Icelandair við þeirri röskun sem varð á flugumferð.
Fram kemur á vef The Eonomist að Icelandair hafi verið fljótt að bregðast við ástandinu og sjá jákvæða möguleika í því ástandi sem skapaðist þegar gos hófst í Grímsvötnum um síðustu helgi.
Segir að flugfélagið hafi sent frá sér fréttatilkynningu til blaðamanna, þar sem þeir voru hvattir til að koma til Íslands sem fyrst til að að fjalla um eldgosið og björgunaraðgerðir á vettvangi. Í tilkynningunni hafi blaðamennirnir verið fullvissaðir um að askan frá eldfjallinu truflaði ekki flugumferð á Íslandi.
„Forvitnir ferðamenn eru þegar farnir að koma, spenntir yfir því að skoða svæðið og sjá öskuna með eigin augum. Þeir verða hins vegar að hafa hraðann á því hreinsunaraðgerðirnar ganga hratt fyrir sig og íbúar á svæðinu vonast til þess að lífið á suðausturhluta landsins verði aftur orðið eðlilegt sem fyrst,“ segir í tilkynningunni sem Icelandair sendi erlendum fjölmiðlum.
Blaðamaður The Economist segir að þrátt fyrir að askan hafi valdið öðrum flugfélögum vandræðum þá hafi Icelandair orðið einna verst úti vegna gossins, og er þá vísað til þess að Keflavíkurflugvelli var lokað og mörgum ferðum aflýst.
Icelandair geti hins vegar lítið gert við því þegar eldgos hefjist. Það sé því eðlilegt að flugfélagið reyni að sjá ljósið í erfiðri stöðu. Eldfjöll séu spennandi og veki athygli og því sé ekki óvitlaust að sjá viðskiptatækifæri í þeim.
Greinarhöfundur segir að Ísland hafi fengið gríðarlega mikla athygli á heimsvísu vegna eldgosanna í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum. Ekkert annað á Íslandi hafi fengið aðra eins fjölmiðlaumfjöllun.
„Þar af leiðandi, er það nokkuð vitlaust að veðja á, líkt og Icelandair hefur gert, að eldgosin muni hafa jákvæð áhrif til lengdar lætur? Þegar allt kemur til alls þá er betra að vera þekkt fyrir náttúrufegurð (og
hættu) heldur en að vera þekkt sem Wall Street á túndrunni [sem
misheppnaðist], ekki satt?“