Sektaðir á fjölskylduhátíðum

Fjöldi gesta var í Laugardalnum í dag. Sektir sem biðu …
Fjöldi gesta var í Laugardalnum í dag. Sektir sem biðu á bílrúðum spilltu gleði sumra. Myndin er úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Fjöldi ökumanna kom að sektarmiðum á rúðum bíla sinna eftir heimsókn á fjölskylduhátíðir í Laugardalnum í dag. Lögreglan var búinn að sekta tugi ökumanna þegar stöðuverðir borgarinnar tóku við.

Margir lögðu leið sína í Laugardalinn í dag. Þar voru tvær fjölskylduhátíðir, önnur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og hin á íþróttasvæðinu, og fleira um að vera.

Fyrir helgina benti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gestum Laugardalsins á að nýta þau fjölmörgu bílastæði sem eru á svæðinu og beindi þeim tilmælum til ökumanna að leggja ekki ólöglega, hvorki á grassvæðum né annars staðar. Þeir sem það gerðu gætu átt von á sektum.

Við eftirlit lögreglunnar í dag kom í ljós að bílum var lagt á grassvæði og gangstéttar. Ástandið var slæmt á Engjavegi og við Reykjaveg. Lögreglumenn voru búnir að skrifa tugi sektarmiða þegar starfsmenn borgarinnar, svokallaðir stöðuverðir, komu á staðinn og tóku við. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hversu margir voru sektaðir í heildina.

Gestur á fjölskylduhátíð Stöðvar 2 í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum lýsti óánægju með að þegar hann kom með börnin í bílinn, eftir velheppnaða hátíð, hafi verið 5000 króna sektarmiði á bílrúðunni. Honum þótti óþarfi af borginni að kalla út stöðuverði á laugardegi, einmitt þegar vitað væri að von væri á fjölda fólks og ekki við því að búast að næg stæði væru fyrir alla.

Lögreglan segir aftur á móti að fólk geti ekki vísað til neyðarréttar þegar merkt bílastæði á svæðinu séu ekki nýtt að fullu, eins og raunin hafi verið í Laugardalnum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert