Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði 11 ökumenn í nótt sem óku undir áhrifum áfengis. Fremur rólegt var á vaktinni fram til kl. fjögur í nótt en eitthvað var um minniháttar pústra fyrir utan skemmtistaði í miðborginni nú í morgun.
Varðstjóri segir að almennt hafi menn verið nokkuð spakir í miðbænum. Ástandið sé þveröfugt miðað við það sem var í fyrrinótt.
Einn gistir fangageymslur.
Lögreglan segir að ástand ökumannanna sem hún stöðvaði í nótt hafi verið misjafnlega slæmt. Einn ökumaður hafi t.a.m. verið það drukkinn að hann sofnaði þegar verið var að taka úr honum blóð.
Þá var einn af þeim tekinn á 106 km hraða á Hringbraut um miðnættið, en þar er hámarkshraði 60 km á klst. Hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.
Flestir ökumannanna sem voru stöðvaðir eru á milli 30 og fertugs og er meirhlutinn karlmenn.
Þá sinnti lögreglan fjórum útköllum í nótt vegna hávaða.