Ávinningur endurútreiknings kominn fram

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. mbl.is/GSH

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið segir að ekki virðist vera dæmi um að fjármögnunarfyrirtæki hafi endurreiknað í ósamræmi við lög um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Það sé sérstakt ánægjuefni. Ávinningur af endurútreikningi 80.000 lána sé kominn fram samkvæmt lögum.

Fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu að lög nr. 151/2010 hafi verið sett í desember sl. í þeim tilgangi að færa öllum lántökum gengistryggðra lána ávinning til samræmis við dómsniðurstöðu Hæstaréttar um ógildi gengistryggðra lána. Með löggjöfinni hafi skuldastaða heimilanna lækkað um 50 milljarða króna.

Í kjölfar setningar laganna hafi þurft að endurreikna um 80 þúsund lánasamninga.

Segir að embætti umboðsmanns skuldara hafi verið falið eftirlit með framkvæmd endurútreikninga fjármálastofnana og umboðsmaður hafi nú skilað skýrslu um athugunina. Eftirfarandi hafi komið fram í skýrslunni:

- Íbúðalán. Ekkert misræmi hefur fundist í endurreikningum gengistryggðra íbúðalána.

- Bílalán. Munur er á endurreikningi bílalána milli fyrirtækja. Hann liggur í því að flest fjármálafyrirtækin leggja ógreidda vexti við höfuðstól skuldarinnar með árs millibili og reikna síðan vexti af nýjum höfuðstól þannig reiknuðum. Þrjú fyrirtækjanna leggja hins vegar vexti við höfuðstól bílalána við hvern áfallinn gjalddaga og má því til einföldunar segja að vaxtavextir reiknist mánaðarlega. Áfallnir vextir geta verið hærri með síðarnefndu aðferðinni.
Þótt þessar tvær útreikningsaðferðir geti leitt til mismunandi niðurstöðu er mikilvægt að hafa í huga að ekki skeikar miklu í öllum þorra uppgjöra.


„Ekki verður betur séð en að hvor aðferðafræðin um sig geti rúmast innan ákvæða laga nr. 151/2010, enda fólu þau lög ekki í sér að felld væru úr gildi önnur samningsákvæði en þau sem tengjast gengistryggingu með beinum hætti. Því ráða samningsákvæði því hvort leggja megi vaxtavexti við hvern áfallinn gjalddaga. Um leið er ljóst að fyrirtækjum er heimilt að endurreikna lánin á þann veg að komi skuldurum betur.

Sérstakt ánægjuefni er að ekki virðast dæmi um að endurreiknað hafi verið í ósamræmi við ákvæði laganna. Ástæða er til að þakka starfsfólki fjármálafyrirtækja og embætti umboðsmanns skuldara fyrir vel unnin störf að þessu mikilvæga verkefni,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka