„Mér þykja þessi ummæli lykta af ákveðinni örvæntingu. Þetta er aðeins enn ein birtingarmynd þess hversu höllum fæti Samfylkingin og ríkisstjórnin stendur,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, um þau ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag að hópar fólk einkum í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum ættu samleið með Samfylkingunni í ýmsum stórum málum eins og afstöðunni til inngöngu í Evrópusambandið.
„Samfylkingin á að standa öllum þessum hópum opin og við eigum að vera reiðubúin að ganga til móts við þá sem vilja stíga skrefið til fulls og leggja þessum mikilvægu málefnum lið í samstarfi við okkur. Breytt skipulag, nýtt nafn, ný forysta eða annað á ekki að standa í vegi fyrir því að þessi mikilvægu málefni fái kröftugan framgang og jafnaðarmenn í öllum flokkum geti sameinast á öflugum flokksvettvangi. Í þessum efnum má ekki standa á okkur í Samfylkingunni,“ sagði Jóhanna meðal annars í ræðu sinni.
Vigdís segist varla getað ímyndað sér að nokkur forystumaður í stjórnmálaflokki á Íslandi hafi áður biðlað með þessum hætti til fólks í öðrum flokkum og lýst því yfir að vilji væri til þess að breyta nánast öllu innan hans til þess að höfða til þess.