Mögulega 18 mánuðir í samning

Jóhanna Sigurðardóttir á fundinum í dag.
Jóhanna Sigurðardóttir á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn

„Ef svo heldur fram sem horfir og hinar eiginlegu samningaviðræður sem hefjast á næstu vikum ganga vel, gæti fullbúinn samningur legið fyrir um áramótin 2012/2013 sem í framhaldi yrði lagður til samþykktar eða synjunar í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

Hún segir að allt bendi til að hægt verði ljúka málinu fyrir lok þessa kjörtímabils.

„Samhliða getum við jafnframt undirbúið okkur fyrir mögulega upptöku evru, þó kannski líði um þrjú ár frá samþykkt aðildar þar til evran gæti tekið við sem fullgildur gjaldmiðill þjóðarinnar,“ sagði Jóhanna þegar hún ávarpaði flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar í dag.

Jóhanna segist ekki vera bjartsýn á að formleg stefnumörkun um upptöku evru fáist samþykkt eins og Alþingi sé saman sett um þessar mundir, en þau efnahagslegu markmið sem séu forsenda upptöku evru séu öll í ágætu samræmi við áherslur núverandi ríkisstjórnar.

„Formleg ákvörðun um að stefna að upptöku evru verður hinsvegar væntanlega að bíða nýrra kosninga og forsenda slíkrar stefnumörkunar verður að sjálfsögðu að vera sú að þjóðin samþykki aðildarsamninginn sem fyrir hana verður lagður.
Umræðan um þessi mál þarf að fara á fullan kraft. Ef allt gengur að óskum ljúkum við aðildarferlinu fyrir lok þessa kjörtímabils og nýtum það næsta til að taka upp Evru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert