Flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar hefst aftur kl. 11 í dag með ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar. Fundurinn er haldinn í Fjölbrautarskóla Garðabæjar.
Að ræðu lokinni taka við almennar umræður ar sem m.a. málefnanefndir flokksins greina frá niðurstöðum sinna funda en fjöldi flokksmanna vann í þeim fyrir hádegi í gær.
Fundarmenn hafa lagt fram tvær tillögur sem verða afgreiddar í dag.
Í annarri þeirra er skorað á ríkisstjórnina að standa fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um fiskveiðistjórnunarkerfið. Þrír valkostir verði í boði fyrir kjósendur. Í fyrsta lagi óbreytt fiskveiðistjórnunarkerfi. Í öðru lagi núverandi frumvarp ríkisstjórnarinnar. Og í þriðja lagi fyrningarleið eins og boðuð hafi verið í stjórnarsáttmálanum með viðbótarákvæði um að veiðiheimildir verði leigðar út á jafnréttisgrunni þannig að mannréttindi verði virt.
Jóhanna setti fundinn í hádeginu í gær, en þar fór hún yfir umbótastarf Samfylkingarinnar sem fram hefur farið innan flokksins síðasta árið.
Hún sagði að væri mikilvægum áfanga náð í umbótaferlinu og áfram verði unnið að umbótum innan flokksins fram að landsfundi sem haldinn verður á höfuðborgarsvæðinu í haust dagana 21.-23. október.