Samtök álframleiðenda, Samál, segir að álverð hafi hækkað um fjórðung á einu ári. Þessar miklu hækkanir leiði til aukinna útflutningstekna af áli.
Samál segir að við lokun markaða á föstudag hafi álver staðið í 2,548 dölum miðað við þriggja mánaða samning. Verðið hafi hækkað um 27% á síðastliðnu ári og nærri 40% ef horft sé til lágpunkts í álverði um mitt síðasta ár.
„Þessar miklu hækkanir leiða til aukinna útflutningstekna af áli. Þannig jukust útflutningstekjur af áli á föstu gengi um 5% fyrstu þrjá mánuði þessa árs. Námu þær samtals liðlega 56 milljörðum króna,“ segir Samál í tilkynningu.
Bent er á að í þeim tilfellum þar sem raforkuverð til innlendra orkufyrirtækja sé tengt álverði skili þessi mikla hækkun umtalsverðri hækkun á raforkuverði. Haldist álverð áfram hátt gæti það aukið raforkutekjur íslenskra orkufyrirtækja um liðlega 4 milljarða króna á þessu ári.