Badmintonsambandið standi með konum

Femínistafélag Íslands skorar á Badmintonsamband Íslands að standa með konum og mótmæla nýjum reglum um klæðaburð kvenna í badminton.

Stjórn Alþjóðabadmintonsambandsins hafði ákveðið að taka upp nýjar reglur um klæðaburð sem áttu að taka gildi 1. júní. Gildistöku reglnanna hefur nú verið frestað vegna mikillar gagnrýni og á að leggja fram tillögur að nýjum reglum í desember.  

Reglurnar, sem áttu að taka gildi nú, gerðu ráð fyrir því að konur klæddust pilsum eða kjólum í keppni. Femínistafélagið segir, að rökstuðningurinn fyrir ákvörðuninni hafi verið sá að það stuðlaði að auknu áhorfi og vinsældum íþróttarinnar að gera konurnar „kvenlegri“.

„Með þessu er verið að gera konur í badminton að sýningargripum, á kynferðislegum forsendum. Athygli er beint að líkama leikkvenna, í stað íþróttarinnar, og þannig gert lítið úr hæfileikum þeirra og hinni miklu vinnu og tíma sem konur í badminton leggja á sig til að ná árangri. Það er sorglegt að einstaklingar sem fara við völd í heimi íþrótta skuli líta á konur og líkama kvenna sem tæki til markaðssetningar. Femínistafélagið undrast jafnframt að á 21. öldinni sé verið að setja reglur um og íhlutast um klæðaburð kvenna," segir í ályktun félagsins.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert