Fréttaskýring: Dularfull og skelfileg veðurfyrirbæri

Ljóst var fyrir helgi að skýstrókarnir sem herjuðu í Missouri og fleiri Miðvesturríkjum Bandaríkjanna í liðinni viku urðu minnst 139 manns að bana og um 100 var enn saknað um helgina. Um 750 manns slösuðust og eignatjónið er geysimikið. Borgin Joplin í Missouri varð verst úti en þar búa nær 50 þúsund manns.

En hvað er skýstrókur, stundum nefndur skýstrokkur? Hann er skyndileg hringiða sem minnir á trekt eða súlu af lofti er virðist spretta upp eins og tré en á ofurhraða, snýst geysihratt í hringi og sogar upp lausa hluti og jafnvel vatn. Fyrirbærið er algengara í náttúrunni en margur hyggur. Það þekkist líka á Íslandi en veldur sárasjaldan miklum spjöllum á norðlægum breiddargráðum.

En á afmörkuðu belti um miðbik Norður-Ameríku eru strókar sem myndast yfir landi óvenju tíðir og skæðir, oft hafa þeir valdið miklu manntjóni. Mesta manntjón sem orðið hefur af völdum skýstróks var samt í Bangladesh, árið 1989 fórust þar um 1300 manns.

Aflið sem myndast er gríðarlega mikið, vindstyrkurinn fer jafnvel yfir 400 km á klst. í stróknum en venjulega tekur þetta fljótt af, jafnvel á stundarfjórðungi. Stærstu strókarnir myndast yfir landi en einnig myndast svonefndir vatnsstrókar yfir vatni eða sjó. Þar sem hafið þekur mikinn meirihluta yfirborðs jarðar verðum við yfirleitt ekki vör við þá.

Manntjónið hefur minnkað síðustu áratugina

En þótt vísindamenn viti í stórum dráttum hvernig strókarnir myndast er margt á huldu um orsök þeirra og erfitt að spá um þá, rétt eins og nákvæma stefnu hvirfilbylja. Að sögn bandaríska blaðsins USAToday er sökudólgana varla að finna meðal manna, mjög ósennilegt sé að hlýnun af mannavöldum auki tíðnina eða afl strókanna. Þótt hærra hitastig geti valdið óstöðugra veðurfari segi vísindamenn að nær útilokað sé að tengja afbrigðileg veðurfyrirbæri við hlýnunina.

Blaðið bendir á að framfarir í ratsjártækni og öðrum viðvörunarbúnaði hafi dregið mikið úr manntjóni af völdum skýstróka. Um 1925 hafi að meðaltali 1,8 af hverri milljón dáið af völdum skýstróka í Bandaríkjunum ár hvert en nú sé hlutfallið aðeins 0,1 af milljón. Ef fólki finnist að tíðnin sé meiri og styrkurinn meiri en áður geti skýringin einfaldlega verið að meira sé sagt frá skýstrókum í fréttamiðlum og fleiri myndavélar séu í notkun núna. En getur verið að draga megi enn úr hættunni með því að efla viðvaranir?

Varla, USAToday bendir á að sírenur hafi verið þeyttar í Joplin 20 mínútum áður en strókurinn skall á borginni. Það hafi verið óvenjulangur viðbragðstími en ekki dugað til. Einnig hafi verið sýnt fram á að þrjár af hverjum fjórum skýstrókaviðvörunum reynist ástæðulausar og með tímanum dragi þannig aðgerðir því beinlínis úr árvekni fólks. Menn sofni á verðinum. Þá væri út í hött að reyna að gera öll hús svo sterk að þau þoli öflugustu skýstróka, það sé svo ofboðslega dýrt. Frekar verði að byggja nægilega mörg traust byrgi handa almenningi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka