Það sem af er starfstíma núverandi ríkisstjórnar hafa 42 reglugerðir og tilskipanir Evrópusambandsins verið samþykktar á Alþingi og átta til viðbótar bíða á færibandinu eftir afgreiðslu. Eru þetta nærri tvöfalt fleiri ESB/EES-mál en afgreidd voru á starfstíma síðustu ríkisstjórnar.
Atla Gíslasyni alþingismanni hefur fundist að mikill hluti af störfum ríkisstjórnar og Alþingis snúist beint eða óbeint um aðlögun að ESB. Hann telur að ESB-málum hafi fjölgað mjög þegar Samfylkingin fór í stjórn með Sjálfstæðisflokknum vorið 2007 og aftur eftir að Samfylkingin og VG mynduðu sína ríkisstjórn og sóttu um aðild að ESB. „Samfylkingin er ótrúlega fókuseruð á þetta,“ segir Atli sem sagði sig úr þingflokki VG meðal annars vegna framgöngu forystu flokksins í ESB-málum.
Hann fékk upplýsingadeild Alþingis til að taka saman yfirlit um afgreiðslur á ESB-tilskipunum og -reglugerðum og EES-reglum. Þegar yfirlitið er skoðað kemur í ljós að í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar voru 27 ESB-mál samþykkt. Útlit er fyrir að 50 mál verði afgreidd á rúmlega tveggja ára starfstíma ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG.„Þetta er ótrúlega markviss stefna og VG hefur því miður algerlega farið í hnjánum í ESB-málinu,“ segir Atli í nánari umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.