„Deilan er hjá sáttasemjara þannig að það er í sjálfu sér ekkert meira um það að segja. Menn hafa bara ekki náð saman ennþá og þetta er neyðarúrræði sem við fórum út í,“ segir Óskar Einarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands.
Flugvirkjar hafa boðað til vinnustöðvana 8., 9. og 10. júní næstkomandi frá klukkan sex að morgni til klukkan tíu. Skili þær ekki árangri er gert ráð fyrir tveggja daga verkfalli sem hæfist á miðnætti 20. júní. Flugvirkjar hafa verið án samninga síðan 31. janúar síðastliðinn.
Óskar segir að þrýstingur sé frá félagsmönnum um að knýja viðsemjendur þeirra, Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair, til samninga og þetta sé eina úrræðið sem félagið hafi til þess. Hann segir að ekkert hafi þokast í samningaviðræðunum og segir aðspurður að vissulega grípi menn ekki til aðgerða eins og þeirra sem boðaðar hafa verið nema vegna þess að annað sé ekki að skila árangri.
Óskar segir ljóst að aðgerðirnar séu líklegar til þess að valda einhverjum töfum á flugi til Evrópu. Á þeim tíma sem vinnustöðvanirnar eru boðaðar séu flugvélar til að mynda að koma frá Ameríku á leið austur eftir.
„En við skulum vona að það komi ekki til þess. Það er enn vika í þetta og það getur margt gerst á viku,“ segir Óskar. Hann segir að framundan séu áframhaldandi samningafundir. „Menn eru að ræða saman og þetta hleypir vonandi einhverjum glæðum í viðræðurnar.“