Gagnrýndi ákvæði um tekjur af veiðigjaldi

Búist er við að umræða um stjórnkerfi fiskveiða standi fram …
Búist er við að umræða um stjórnkerfi fiskveiða standi fram á kvöld á Alþingi. mbl.is/Kristinn

Helgi Hjörvar Samfylkingunni gagnrýndi á Alþingi í morgun ákvæði um að hluti tekna af hækkun veiðigjalds rynni til ákveðinna byggðarlaga en sneytt væri hjá höfuðborgarsvæðinu. Þetta þyrfti að skoða sérstaklega í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

Þetta kom fram í andsvari Helga við framsöguræðu Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðherra við minna frumvarpinu um stjórn fiskveiða, sem fjallar m.a. um strandveiðar og um hækkun veiðigjaldsins.

Helgi sagði þá hugmynd í frumvarpinu skrýtna, að ráðstafa ætti hluta af tekjum ríkisins sérstaklega til ákveðinna Íslendinga en ekki annarra með vísun til þess að þær eigi að renna til byggða.

Spurði Helgi ráðherrann hvort hann teldi að Reykvíkingar ættu minni hlut í auðlindum Íslands en aðrir landsmenn. „Öðruvísi verður þetta frumvarp ekki skilið,“ sagði Helgi.

Helgi sagði það grundvallaratriði að Íslendingar allir ættu tekjur ríkissjóðs og auðlindir landsins jafnt. Síðan væru teknar pólitískar ákvarðanir um hvort einstök byggðarlög þyrftu stuðning. ,,Það er grundvallaratriði að tekjur ríkissjóðs og tekjurnar af auðlindum landsmanna eigum við saman,“ sagði Helgi.

Þess vegna þurfi þetta atriði að koma til sérstakrar skoðunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

Jón Bjarnason minnti í svari sínu á að almenningur á höfuðborgarsvæðinu byggi við miklu lægra orkuverð úr sameiginlegri auðlind en íbúar víða um landið.

Jón sagði að þetta væri að sjálfsögðu umdeilt atriði en menn yrðu að horfa á málin heildstætt og á áhrif grundvallaratvinnuvegarins á búsetu í landinu. Þarna væri um sértæka tekjuöflun að ræða sem ætti að ganga til sértækra verkefna og mörg dæmi væru um slíkt. Vel mætti þó finna aðra útfærslu fyrir framkvæmdina á þessu ákvæði. En þarna væri sú stefna mörkuð að horfa til sjávarbyggðanna vítt og breitt um landið. Ef Alþingi vildi hafa þetta með óbreyttum hætti þá yrði það niðurstaðan. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert