Lyfjafræðingafélag Íslands segir, að stórefla þurfi núverandi eftirlit og nýta betur þá rafrænu gagnagrunna sem nú þegar séu til staðar.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn félagsins. Segir þar að Kastljósþættir síðustu viku hafi sýnt afar dökka mynd af undirheimum Reykjavíkur þar sem mikið magn lyfseðilsskyldra lyfja gangi kaupum og sölum. Þættirnir sýni afleiðingar fíknar og ofnotkunar lyfseðilskyldra lyfja með dauðsföllum og öðrum hörmulegum afleiðingum. Að auki sé einnig bent á að um mikla sóun á almannafé er að ræða.
Lóst er að núverandi eftirlit með eftirritunarskyldum lyfjum sé á engan hátt nægilegt.
Félagið segist leggja áherslu á að:
- Stórefla þurfi núverandi eftirlit og nýta eigi betur þá rafrænu gagnagrunna sem nú þegar eru til staðar.
- Gera þurfi viðeigandi ráðstafanir til að samtengja aðgangsstýrðan lyfja gagnagrunn á milli allra apóteka. Þannig verði hægt að fylgjast með lyfjanotkun einstaklinga á milli apóteka og með því koma í veg fyrir að einstaklingar geti leyst út samskonar lyf í mismunandi apótekum. Einnig mætti huga að því að minnka magn eftirritunarskyldra lyfja á hverja lyfjaávísun og með því takmarka enn frekar aðgang að þessum lyfjum.
- Nýta eigi skömmtunarþjónustu apóteka betur og huga mætti að því að koma á fyrirkomulagi þar sem fíkill fær dagskammt afgreiddan í apóteki og tæki lyfið inn undir eftirliti lyfjafræðings.
- Rafræn sjúkraskrá verði aðgengileg öllum læknum.