Stjórn Atvinnuþróunarsjóðs Austurlands hefur samþykkt ályktun þar sem lýst er vandlætingu á því hvernig þeir sem fara með fé almennings í lífeyrissjóðum landsins leyfi sér að koma fram við jaðarbyggðir á Íslandi. Ástæðan er sú, að Framtakssjóður Íslands ætlar ekki að leggja fé í álkaplaverksmiðju á Seyðisfirði.
Í rúmlega fjögur ár hefur hópur manna unnið að því að koma upp á Seyðisfirði úrvinnsluiðnaði úr áli. Ólafur H. Sigurðsson, bæjarstjóri á Seyðisfirði, segir að stærstan hluta þessa tíma hafi verið unnið að því að kaupa verksmiðju í Noregi sem framleiðir álvíra og flytja til Seyðisfjarðar.
Ólafur segir að frá byrjun hafi Alcoa sýnt málinu mikinn áhuga og hefur gefið út staðfestingu á því að þeir muni selja hráefni til vinnslunnar hér á staðnum. Álkaplar eru verðmætasta afurð sem framleidd er á Íslandi úr áli.
„Gerðar hafa verið fýsileikaskýrslur og hagkvæmniathuganir sem sýna að hér er um mjög vænlegt verkefni að ræða. Samt hefur gengið afar illa að finna fjárfesta til að festa fé sitt í verksmiðjunni. Fyrir tveimur vikum virtist þetta hins vegar komið í höfn en þó vantaði lokaákvörðun hjá „Framtakssjóði Íslands“. Það svar kom svo loksins síðast liðinn fimmtudag þar sem því var hafnað að taka þátt í verkefninu. Þar með er endanlega útilokað að mati þeirra sem að verkefninu standa að þetta verði að veruleika hér á Seyðisfirði,“ segir Ólafur.
Á fundi stjórnar Atvinnuþróunarsjóðs Austurlands sem haldinn var á föstudag lagði Ólafur fram svohljóðandi tillögu:
„Stjórn Atvinnuþróunarsjóðs Austurlands fordæmir þá ákvörðun Framtakssjóðs Íslands að ætla ekki að leggja fjármagn í kaup og byggingu á álkaplaverksmiðju á Seyðisfirði. Röksemdir stjórnar sjóðsins fyrir þessari ákvörðun ganga þvert á hagkvæmniathuganir sem unnar hafa verið vegna verkefnisins. Ljóst er af öllu að megin ástæða afstöðu sjóðsins ræðst af staðsetningu verksmiðjunnar, en ekki fjárhagslegum forsendum. Stjórn Atvinnuþróunarsjóðsins lýsir jafnframt yfir vandlætingu sinni á því hvernig þeir sem fara með fé almennings í lífeyrissjóðum landsins leyfa sér að koma fram við jaðarbyggðir á Íslandi eins og endurspeglast í ákvörðun FSI.
Þá skorar stjórn Atvinnuþróunarsjóðsins á ríkisstjórn Íslands og Samband Íslenskra Sveitarfélaga, að taka strax til umfjöllunar stöðu jaðarbyggða á Íslandi áður en það verður um seinan. Jafnframt óskar sjóðurinn eftir því við stjórn SSA og þingmenn kjördæmisins að fylgja áliti stjórnar sjóðsins eftir.“
Tillagan var samþykkt með öllum atkvæðum. Atvinnuþróunarsjóður Austurlands hefur lagt þessu verkefni lið með verulegum fjárframlögum sem nú eru töpuð og kom fram á fundinum gríðarleg óánægja með niðurstöður þessa máls. Þá hefur Þróunarfélag Austurlands lagt mikla vinnu til margra ára í þetta mál og staðið af miklum heilindum að því að koma þessu hingað á Seyðisfjörð.„Bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefur lagt málinu allan þann stuðning sem óskað hefur verið eftir. Jafnframt hefur bæjarstjórn nú beðið í rúmlega eitt ár með allar aðgerðir sem snúið hafa að því að hagræða í mannahaldi í þeirri von að upp væri að birta í atvinnulífi staðarins. Sú von brást okkur í síðustu viku. Enn einu sinni sjáum við hina ömurlegu staðreynd blasa við jaðarbyggð á Íslandi. Peningaöfl landsins stýra því algerlega hvert fjármagnið fer og einu virðist gilda þó fjármálaráðherra landsins leggist á árar með okkur og reyni að koma vitinu fyrir menn. Verst finnst manni samt að sjá að sjóður sem er í eigu sextán lífeyrissjóða, Landsbanks og VÍS skuli haga sér svona. Sjóður sem skilaði fjögurra milljarða hagnaði síðustu sextán mánuðina. Þetta eru flott skilaboð til þeirra sem búa á þessum svæðum landsins. Við erum líka að borga okkar í lífeyrissjóðina. Er ekki ráð að við snúum bökum saman á landsbyggðinni og látum skella í tönnum? Fjandinn hafi það, við verðum ekki drepin hljóðalaust,“ segir Ólafur á heimasíðu sveitarfélagsins.