Læknafélag Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem fram kemur að félagið vilji að leitað verði allra leiða til þess að koma í veg fyrir óeðlilegar lyfjaávísanir og vonar ennfremur að yfirstandandi umræða verði hvatning til þess.
„Læknafélag Íslands ítrekar áskorun sína til heilbrigðisyfirvalda um að koma á samtengdri sjúkraská á landsvísu. Þannig fá læknar heildaryfirsýn yfir meðferð sjúklinga og lyf sem ávísað er til þeirra. Jafnframt skorar félagið á landlækni að sjá til þess að upplýsingar úr fyrirliggjandi lyfjagagnagrunni verði aðgengilegar öllum læknum. Læknafélagið lýsir yfir vilja sínum til samstarfs við landlækni og aðra fagaðila til að koma á nauðsynlegum úrbótum,“ segir ennfremur í ályktuninni.