„Átakanlegt yfirklór VG“

Jón Gunnarsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Bjarni Benediktsson, þingmenn Sjálfstæðisflokks.
Jón Gunnarsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Bjarni Benediktsson, þingmenn Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

„Þetta er átakanlegt yfirklór VG,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir alþingismaður um þingsályktunartillögu þingmanna VG um að Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu.

Vigdís Hauksdóttir alþingismaður spurði á Alþingi í morgun hvort þessi tillaga þingmanna VG væri ætluð til heimabrúks fyrir kjósendur VG og benti á að tillagan færi gegn stefnu ríkisstjórnarinnar.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG og fyrsti flutningsmaður tillögu VG um að Ísland segi sig úr Nató, sagði að tillagan væri ekki til heimabrúks. Með tillögunni væru þingmenn VG að biðla til þingheims um nýja hugsun. Það væri þörf fyrir nýja hugsun á alheimsvísu og við ættum að hverfa frá gildum kalda stríðsins.

Ragnheiður Elín sagði að fyrst Guðfríður Lilja teldi þörf fyrir nýja hugsun á heimsvísu hefði verið eðlilegt að fulltrúar VG hefðu lagt fram tillögu um úrsögn úr Nató á fundi Atlantshafsráðsins sem haldinn var fyrir skömmu. Fulltrúar VG sóttu fund ráðsins og þar hefði gefist einstakt tækifæri til að kynna þessa nýju alheimshugsun fyrir heiminum. Það hefðu þeir ekki gert. Í staðinn væri lögð fram tillaga á Alþingi sem hún sagði einstakt yfirklór og einungis ætluð til heimabrúks fyrir kjósendur VG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka