Laugavegur göngugata að hluta

Frá Laugavegi.
Frá Laugavegi. Rax / Ragnar Axelsson

Samþykkt var samhljóma í dag í umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkurborgar að Laugavegurinn verði að hluta til göngugata á tímabilinu 1. júlí til 1. ágúst í sumar. Um er að ræða kaflann frá Vatnsstíg og að Skólavörðustíg.

„Markmiðið er að skapa spennandi götu mannlífs, menningar og verslunar og bæta um leið hljóðvist og loftgæði. Laugarvegurinn getur orðið vinsæl sumargata í Reykjavík sem lokkar til sín jafnt Íslendinga sem erlenda gesti,“ segir í tilkynningu frá ráðinu.

Fram kemur að upphaflega hafi staðið til að um tveggja mánaða tímabil yrði að ræða en í samráði við hagsmunaaðila og íbúa á opnum fundi í gær hafi verið ákveðið að stytta það í einn mánuð. Ákvörðunin verður síðan endurmetin eftir að tvær vikur verða liðnar af þeim tíma sem þetta fyrirkomulag verður við líði. Meðal annars verða gerðar talningar á umferð gangandi vegfarenda um göngugötuna og fjölda viðskiptavina í verslunum sem standa við hana.

„Akandi þurfa ekki að vera uggandi um hag sinn því aðgangur er greiður um þvergötur á svæðinu og fjölmörg bílastæði eru fyrir hendi í nálægum bílastæðahúsum. Aðgengi hreyfihamlaðra verður í samráði við Öryrkjabandalagið,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert