Sýslumaðurinn í Kópavogi hefur lagt lögbann við því að Kynnisferðir auglýsi og aki áætlunarferðir á sérleyfisleiðum Bíla og fólks ehf. sem sér alfarið um sérleyfisakstur undir nafni Sterna.
Óskar Stefánsson, framkvæmdastjóri Bíla og fólks, segir í samtali við mbl.is að málið varði ferðir á milli Reykjavíkur og Skaftafells, Skaftafell-Jökulsárlón og Höfn-Skaftafell, sem Bílar og fólk sinni árið um kring.
Óskar segir að Kynnisferðir hafi ætlað að vera með beinar áætlunarferðir á þessa staði nú í sumar. „Við töldum að þetta væru auglýstar áætlunarferðir sem þeir væru að fara, og að þetta væri beint gegn okkur.“
Hann bætir því við að hann telji þetta vera atlögu að landsbyggðinni. „Ef við getum ekki fengið að sinna þessu í friði á heilsársgrundvelli þá er það alveg skiljanlegt að við getum ekki haldið uppi þjónustu þegar engir farþegar eru. Það eru bara rosalega fáir farþegar á þessari leið í níu mánuði ári, því miður.“
Kynnisferðir mótmæla því að um áætlanaferðir sé að ræða. Það hafi aldrei verið tilgangur fyrirtækisins að selja áætlunarferðir á þeim leiðum sem um ræði.
Starfsemi Kynnisferða sé annars eðlis. Um sé að ræða ferðir með leiðsögn. Þær ferðir sé ekki hægt að kaupa nema í formi ferðapassa, sem eingöngu séu seldir fyrir lengri ferðir eða í formi dagsferða. Ekki sé mögulegt að kaupa eingöngu styttri leggi innan heildarpakka.
Kynnisferðir telja að skilyrði lögbanns séu ekki uppfyllt í þessu tilfelli.
Ekki var fallist á þessi rök og féllst sýslumaður að leggja lögbann á Kynnisferðir.