Næturfrost hefur tafið plöntun garðyrkjubænda á Flúðum og plönturnar taka ekki eins vel við sér og venjulega vegna kulda. Gosið í Grímsvötnum virðist hafa haft þau einu áhrif að þrífa þarf geymslukassa fyrir haustið vegna öskunnar.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Þröstur Jónsson, sem rekur Garðyrkjustöð Sigrúnar á Flúðum ásamt konu sinni Sigrúnu H. Pálsdóttur, að útlitið í ræktuninni sé nokkuð gott þrátt fyrir kalt vor en plöntunin sé seinna á ferðinni en venjulega.
Norðanátt með kulda og næturfrosti hafi verið ríkjandi og áfram sé spáð næturfrosti. Svona tíð sé ekki óþekkt en næturfrost eftir 20. maí hafi ekki komið síðan 1996 eða 1997 eða í um 15 ár.