Hæstiréttur þyngdi í dag dóm, sem 25 ára gamall karlmaður, Andri Vilhelm Guðmundsson, hlaut fyrir hrottalega líkamsárás á annan mann í miðborg Reykjavíkur á nýársnótt. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði dæmt manninn í 3½ árs fangelsi en Hæstiréttur þyngdi fangelsisdóminn í 4 ár.
Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að maðurinn, sem varð fyrir árásinni, hafi verið til meðferðar á endurhæfingardeild Landspítala frá því í janúar vegna heilaáverka sem hann hlaut við árásina. Hann glími enn við töluverðar afleiðingar áverkans og sé með „hugræna skerðingu“.
Taugasálfræðilegt mat hafi sýnt talsverða og fjölþætta áunna taugasálfræðilega veikleika, meðal annars minnisskerðingu og skert vinnsluminni, einbeitingu, úthald og skipulag. Einnig eigi hann erfitt með orðminni og sé þvoglumæltur. Þá hafi hann verki í útlimum og beri merki kvíða og þunglyndis. Vísar Hæstiréttur til þessa við ákvörðun refsingar.
Andri var fundinn sekur um að hafa utandyra við Hótel 1919 í Hafnarstræti
í Reykjavík veist með ofbeldi að 34 ára karlmanni, m.a. sparkað í hann,
svo hann féll í gangstéttina og síðan sparkað ítrekað í höfuð hans og
líkama þar sem hann lá. Afleiðingar árásarinnar urðu þær að maðurinn
hlaut lífshættulegan höfuðáverka, þ.e. höfuðkúpubrot með
utanbastsblæðingu undir brotinu hægra megin á gagnaugasvæði og heilamar
vinstra megin í gagnstæðum hluta heila.
Andri
neitaði sök og sagði manninn líklega hafa dottið aftur fyrir sig þegar
þeir áttust við. Hann hafi ekki komið þar að. Í málinu lá hins vegar
fyrir framburður þriggja einstaklinga, sem öll urðu vitni að
atburðinum, en tengjast hvorki Andra Vilhelm né fórnarlambi hans.
Framburður þeirra var afdráttarlaus um atvik öll og lýstu þau atvikum
þannig að Andri Vilhelm hafi sparkað í manninn sem við það hafi fallið
aftur fyrir sig og niður tröppur framan við hótelið. Eftir fallið hafi
fórnarlambið legið eftir og ekki hreyft sig. Andri Vilhelm hafi gengið
rakleitt að manninum og sparkað ítrekað í höfuð hans eða trampað á því.
Þrjú
vitni studdu framburð Andra Vilhelms en þau voru öll samferða honum
nýársmorgun og eru vinir hans. Dómurinn taldi framburð allra þessara
vitna haldin þeim annmarka að töluvert misræmi var á milli framburðar
þeirra hjá lögreglu og fyrir dóminum. Gátu þau lítið borið um atvik er
lögregla tók skýrslu af þeim í framhaldi af atburðinum en við
aðalmeðferð málsins um sex vikum eftir atvikið var minni þeirra orðið
töluvert betra um atvikin. Var skýring þeirra á breyttum framburði að
mati héraðsdóms ekki trúverðug.