Gagnrýna lífeyrisskatt

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ

Miðstjórn Alþýðusambandsins Íslands segir, að fyrirhugaður skattur á lífeyrissjóði  sé í hrópandi andstöðu við yfirlýsingu og fyrirheit ríkisstjórnarinnar og væri klár forsendubrestur gagnvart félagsmönnum ASÍ og nýgerðum kjarasamningum.

Forseti og varaforseti Alþýðusambandsins áttu síðdegis í gær fund með forsætisráðherra, fjármálaráðherra og velferðarráðherra um áhrif aðgerða stjórnvalda á afkomu elli- og örorkulífeyrisþega, sérstaklega þeirra sem voru virkir á almennum vinnumarkaði.

Samkvæmt upplýsingum frá ASÍ kom forysta sambandsins á framfæri megnri óánægju Alþýðusambandsins með áform ríkisstjórnarinnar um að leggja skatt á lífeyrissjóðina til að fjármagna sérstakar vaxtabætur á þessu og næsta ári.

„Ljóst má vera að slík skattlagning mun leiða til skerðinga á áunnum lífeyrisréttindum félagsmanna Alþýðusambandsins á meðan stjórnvöld ábyrgjast lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Það skýtur skökku við að skattleggja einungis þá elli- og örorkulífeyrisþega sem minnst réttindi hafa og var ríkisstjórnin minnt á, að í nýútgefinni yfirlýsingu hennar í tengslum við gerð kjarasamninga – þar sem jöfnun lífeyrisréttinda var eitt af aðalmarkmiðum aðildarfélaga ASÍ – hét ríkisstjórnin því að vinna að þessu markmiði m.a. með inngreiðslum til að jafna uppávið lífeyrisréttindi í almenna kerfinu," segir á vef ASÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert