Einstakt tækifæri gafst haustið 2008, þegar bankarnir voru fallnir, til að láta kröfuhafa þeirra taka á sig tapið. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins í umræðu um skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna í morgun.
Á þeim tíma hafði Ísland hafði verið afskrifað efnahagslega og sagt að hér væru gjaldþrota bankar í gjaldþrota landi. Þá hefðu skuldabréf útgefin af bönkunum verið til sölu á 1% af fyrra virði þeirra og kröfur á þá á útsölu.
Sagði Sigmundur að neyðarlögin hefðu verið djörf aðgerð. En sú aðgerð sem hófst með þeim hafi aldrei verið kláruð. Hugað hafi verið að eignunum en ekki hugað að skuldunum.
„Á þessum tíma voru eignasöfn bankanna ákaflega lágt metin, en hvað sem líður mati Deloitte og Oliver Wyman hefði mátt líta til markaðarins. Það var markaðurinn sem gerði bönkunum kleift að stofna til skuldanna sem felldu þá svo að lokum. Þá var það mat markaðarins að bankarnir væru einskis virði," sagði Sigmundur.
Á sama tíma hefðu lánasöfn banka Vestanhafs verið seld á brot af nafnvirði. Þá hefði ríkið átt að færa eignasöfnin yfir með verulegri afskrift. Það hefði líka verið siðferðislega rétt vegna stökkbreytingar lánanna vegna vinnubragða bankanna að sögn Sigmundar. Semsagt bæði lögfræðilega og siðferðislega rétt. 20.000 milljarðar hefðu verið undir í bankahruninu, en nokkur hundruð milljarðar til viðbótar hefðu skipt sköpum fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Það hefði verið framkvæmanlegt og réttlætanlegt.
Gagnrýndi hann að nú segði fjármálaráðherra að það hefði ekki verið á valdi ríkisstjórnarinnar að gera þetta. Þetta hefði hins vegar verið mun vægari aðgerð gagnvart kröfuhöfum en það sem gert var með neyðarlögunum.
Gagnrýndi margt í ræðu Steingríms
Sigmundur gagnrýndi fleiri atriði í ræðu Steingríms. Ekki hefði verið forðast málaferli með þeirri leið sem farin hafi verið. Málaferli séu nú í gangi úti um allt.
Um eiginfjárframlag ríkisins til nýju bankanna sagði hann að ráðherra hefði komist í mótsögn við sjálfan sig í ræðu sinni. Annars vegar hefðu lán þess til bankanna verið ákaflega góð fjárfesting sem gæfi góðar vaxtatekjur. Þá mætti ætla að ríkið hefði tapað á því að skella ekki 200 milljörðum til bankanna til viðbótar.
Þar að auki væri ekki rétt að bankarnir væru nú farnir að sinna hlutverki sínu sem skyldi. Þúsundir heimila og fyrirtækja séu enn með sín mál í algjörri óvissu í bönkunum.
Þá sagði Sigmundur skýrslu fjármálaráðherra sýna það að frá upphafi hafi verið litið á breska og hollenska ríkið sem meginkröfuhafa á Landsbankann og gamla bankakerfið allt. Aldrei hafi verið litið svo á að TIF hafi verið kröfuhafinn. Samt hafi verið farið út í tveggja ára stríð til að staðfesta hjá hverjum þessar kröfur lægju.