Mikill munur er á því að lífeyrissjóðirnir fjármagni sérstaka vaxtaniðurgreiðslu í tvö ár með fjármálastofnunum og því að sjóðirnir verði skattlagðir. Þetta segir Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða.
Hann er ósáttur við þau orð fjármálaráðherra í Morgunblaðinu í gær að lífeyrissjóðirnir hefðu vel vitað af frumvarpi um aðgerðir í ríkisfjármálum. Sjóðirnir gerðu athugasemd við fullyrðingar um samkomulag um 1,7 milljarða króna eignaskatt í umsögn um frumvarpið.
„Við lýstum yfir í viljayfirlýsingu að við værum tilbúnir til að taka þátt í fjármögnun með fjármálafyrirtækjum á að niðurgreiða vexti árin 2011 og 2012. Það hefur ekkert annað komið til álita en að við það verði staðið,“ segir Arnar.
Hins vegar komi ekki til greina að lífeyrissjóðirnir verði skattlagðir. Um viljayfirlýsingu hafi verið að ræða en ekki samkomulag. Þá sé skipting kostnaðar í frumvarpinu röng en þar er gert ráð fyrir að hann skiptist jafnt milli sjóðanna og fjármálastofnana. Þeir hafi gert ráð fyrir að standa undir fjórðungi af honum.