Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði á Alþingi í dag að nauðsynlegt væri að halda utandagskrárumræðu um afstöðu þingmanna Vinstri grænna til NATO og loftárásanna í Írak í ljósi þess að íslenska ríkisstjórnin hefði í dag fallist á að hernaðaraðgerðum þar undir merkjum NATO verði haldið áfram.
Bjarni sagði, að fulltrúar VG í utanríkismálanefnd og ýmsir ráðherrar flokksins hefðu lýst sig andvíga þessu. Þetta kallaði á utandagskrárumræðu á Alþingi um málið og það væri ekki hægt að ríkisstjórn léki tveimur skjöldum í utanríkismálum, hvort sem væri um að ræða Evrópumál eða mál sem snertu NATO.
„Í sjálfu sér er það ekki mitt vandamál að trúverðugleiki Vinstri grænna er enginn, hvorki í þessu máli né öðrum," sagði Bjarni. „En ég hef áhyggjur af því hvaða skilaboð ríkisstjórnin er að senda til umheimsins og að ríkisstjórnin talar út og suður í jafn mikilvægu máli og þessu."
Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, tók undir þetta og sagði mikilvægt að fram færi umræðu almennt um aðkomu VG að ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Í orði segðist flokkurinn vera andvígan þessum aðgerðum en á borði samþykkti hann þær.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, sagði að ef einhverjir undruðust afstöðu VG í þessu máli hafi þeir ekki fylgst með. Flokkurinn væri andvígur aðild Íslands að NATO og hefði fordæmt loftárásirnar á Líbíu frá upphafi.
„Það er óskandi að stærri hluti þessa þingheims væri með okkur í þeirri vegferð, að í verki sé Ísland friðsöm herlaus þjóð og sýni það á alþjóðavettvangi," sagði Guðfríður Lilja.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagðist vera til í taka utandagskrárumræðu um málið hvenær sem er, þess vegna þá þegar en hann væri upptekinn eftir klukkan 5.
„Ég verð að koma (þingmönnum) VG til varna því þeir hafa verið fullkomlega samkvæmir sjálfum sér. Þeirra afstaða gagnvart Atlantshafsbandalaginu lá fyrir þegar þessi ríkisstjórn hóf störf. Og þeirra afstaða til Líbíu hefur einnig legið fyrir," sagði Össur.