Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur leggur til að hætt sé við svonefnda 15 metra reglu í sorphirðu en í henni felst, að sorpílát við heimili í Reykjavík verði ekki sótt ef þau eru í meira en 15 metra frá sorphirðubíl.
I bókun fulltrúa flokksins á fundi umhverfis- og samgönguráðs í gær segir, að hugmyndafræðin á bak við regluna sé skiljanleg og jákvætt er að leitað skuli leiða til að sorphirða standi undir sér á sanngjarnan hátt. Sanngjarnt sé að þeir sem valdi auknum kostnaði við sorphirðu umfram aðra, hafi val um að annað hvort bregðast við til að lækka þann auka kostnað, eða greiða fyrir hann.
En ef fara eigi í slíkar aðgerðir sé hins vegar nauðsynlegt að gætt sé að jafnræði, sanngirni og góðu samstarfi við borgarbúa. Því miður hafi ekki tekist að tryggja að útfærsla reglunnar uppfylli þessi skilyrði.