Mjög hefur dregið úr tóbaksreykingum íslenskra unglinga á síðustu sextán árum, samkvæmt rannsóknum, sem Rannsóknarsetur forvarna við Háskólann á Akureyri hefur gert.
Skólinn segir, að árið 1995 hafi 32% nemenda í 10. bekk grunnskóla reykt vikulega og 21% daglega. Nú sé orðið næsta fátítt að unglingar á þessum aldri reyki og aðgengi nemenda að sígarettum hefur minnkað að sama skapi.
Um er að ræða rannsókn á vegum evrópsku vímuefnarannsóknarinnar ESPAD á tóbaksreykingum 15–16 ára unglinga. Samkvæmt könnuninni reykja 9% 15-16 ára grunnskólanemenda vikulega og 5% reykja daglega.
Segir Háskólinn á Akureyri, að haldi þessi þróun áfram muni tóbaksreykingar nánast heyra sögunni til meðal íslenskra unglinga þegar næsta umferð ESPAD rannsóknarinnar fer fram vorið 2015.