Framlag ríkisins nægir ekki lengur til að greiða verktökum fyrir grafartöku og prestum fyrir þjónustu við útfarir. Þetta var meðal þess sem fram kom á aðalfundi Kirkjugarðasambands Íslands (KGSÍ) 28. síðastliðinn.
Að sögn Þórsteins Ragnarssonar, formanns stjórnar KGSÍ, hefur ríkisvaldið lækkað framlög til kirkjugarða um 40%, ef mið er tekið af samningi sem gerður var árið 2005.
„Það er eins með kirkjugarðana eins og flestar opinberar stofnanir, það hefur verið skorið niður í fjárframlögum vegna hrunsins. En enginn spyr okkur hvort þessir peningar dugi,“ sagði Þórsteinn í samtali við mbl.is.
„Það er svo komið, að það er ekki lengur hægt að jarða þá látnu á kostnaðarverði.“
Þórsteinn segir að gröfumenn taki grafirnar í verktakavinnu, rekstrarkostnaður þeirra hafi hækkað, m.a. vegna hækkana á olíuverði. Þóknun presta hafi aftur á móti ekki hækkað.
Hann segir að bregðast verði við þessu með einhverjum hætti.„Við sjáum fyrir okkur að ríkisvaldið verði að færa upp einingaverð fyrir grafartöku og umhirðu á kirkjugörðum. Ef það er ekki gert, þá hafa kirkjugarðarnir þann möguleika að færa til peninga úr umhirðu garðann, en það kemur þá niður á umhirðu þeirra,“ segir Þórsteinn.
„Við þurfum að gera ráðamönnum það ljóst að þessir peningar nægja ekki til eðlilegrar starfsemi kirkjugarðanna.“