Húsfyllir var á opnum fundi framsóknarmanna í Kópavogi í gærkvöldi. Á fundinum fór Sigmundur Davíð Gunnlaugsson yfir stöðuna í stjórnmálunum og ræddi m.a. aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í skuldamálum og þær upplýsingar sem koma fram í skýrslu um endurreisn bankanna, stefnu Framsóknar í sjávarútvegsmálum, Evrópumál, aðkomu lífeyrissjóðanna að fjárfestingaverkefnum, hvaða leiðir séu enn færar til að leiðrétta skuldir heimilanna og fyrirspurnir til innanríkisráðherra um áhrif Schengen samstarfsins.
Ásmundur Einar hlaut góðar viðtökur
Einnig komu til fundarins þingmennirnir Siv Friðleifsdóttir, Eygló Harðardóttir og Ásmundur Einar Daðason, sem hlaut mjög góðar móttökur á sínum fyrsta fundi sem þingmaður Framsóknar.
Í tilkynningu frá Framsóknarflokknum segir að mikill hugur sé í Framsóknarmönnum í SV kjördæmi, sem af máli fundarmanna að dæma hafi fengið sig fullsadda af núverandi stefnu ríkisstjórnarinnar.