Heimdallur hafnar tóbaksbanni

Heimdellingar segja þingsályktunartillöguna grófa aðför að einstaklingsfrelsi.
Heimdellingar segja þingsályktunartillöguna grófa aðför að einstaklingsfrelsi. mbl.is/Golli

Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, hafnar með öllu þingsályktunartillögu sem nú er fram komin um víðtækasta bann við tóbaki sem sést hefur á vesturlöndum.

Í tilkynningu frá Heimdalli segir að tillagan sé gróf aðför að frelsi einstaklingsins og minnir á ofstopa alræðisríkja fremur en yfirvegaða umræðu í lýðræðisþjóðfélagi.

Heimdellingar segja reykingar vera persónulega ákvörðun hvers og eins, rétt eins og neysla sykurs. Frjáls einstaklingur hafi meðfæddan rétt til athafna svo lengi sem hann skaði ekki aðra. Í heimi vísindanna sé mjög deilt um skaðsemi óbeinna reykinga og því fráleitt að byggja víðtækt bann á þeim hluta rannsókna sem þjóna hagsmunum ofstopans.

„Reynsla af bönnum er sú að undirheimar taka við viðskiptum með bannaðar vörur. Það lærðist í áfengisbanninu og nú síðast í fíkniefnabanninu. Með ólíkindum er að þingmenn ætli að færa undirheimum sígarettur sem verslunarvöru og tryggja að glæpastarfsemi vaxi fiskur um hrygg.“

„Þingmenn verða að átta sig á því að þegar vandamál eru bönnuð af hörku þá hverfa þau ekki. Þau flytjast þangað sem enginn sér, þangað sem einstaklingarnir eru réttlausir og þurfa að eiga viðskipti við vafasama aðila.“

„Heimdallur hafnar því tillögunni með öllu og ítrekar að siðferði þeirra átta þingmanna sem að málinu standa ætti aldrei að vera ofar siðferði þeirra 320.000 Íslendinga sem frjálsir ættu að taka sínar ákvarðanir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert