Orkustofnun segir leyfið ekki raska náttúruvernd

Deilur hafa verið um leyfi til rannsókna á jarðhita í …
Deilur hafa verið um leyfi til rannsókna á jarðhita í Grændal í Ölfusi. mbl.is/RAX

Orkustofnun segir að leyfið sem gefið var út til rannsókna á jarðhita í Grændal í Ölfusi raski á engan hátt þeirri vernd sem náttúru og umhverfi er tryggt með lögum. Stjórn Landverndar sagðist í gær harma ákvörðun Orkustofnunar um leyfisveitinguna. Stofnunin hefur sent frá sér tilkynningu þar sem gagnrýni Landverndar á leyfisveitinguna er svarað.

Hvað varðar þær heimildir sem rannsóknareyfi veitir leyfishafa bendir Orkustofnun á að samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu feli leyfi til rannsókna á jarðhita í sér heimild til að leita að jarðhita á tilteknu svæði á leyfistíma, rannsaka umfang, magn og afkastagetu hans. Lögin skilgreini ekki frekar hvað felist í rannsóknum eða hvaða skilyrði séu sett fyrir einstökum rannsóknarframkvæmdum.Rannsóknarboranir séu þannig ekki háðar leyfisveitingu Orkustofnunar.

Þá vekur Orkustofnun athygli á að umrætt rannsóknarleyfi feli í sér almennt leyfi til rannsókna, en ekki leyfi til einstakra rannsóknarframkvæmda, hvort sem er yfirborðsrannsókna eða rannsóknarborana.

Í svari Orkustofnunar segir meðal annars orðrétt:

„Lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu er hvorki ætlað að taka með heildstæðum hætti á umhverfismálum, náttúruvernd og skipulagsmálum, né hrófla við eða víkja úr vegi þeirri löggjöf. Því gilda t.d. ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum, laga um náttúruvernd og skipulagslaga um allar framkvæmdir rannsóknarleyfishafa þrátt fyrir útgáfu þessa rannsóknarleyfis. Fyrirhugaðar framkvæmdir rannsóknarleyfishafa í kjölfar útgáfu þessa rannsóknarleyfis eru því háðar leyfum þar til bærra yfirvalda.“

Rannsóknarleyfið raski því á engan hátt þeirri vernd sem náttúru og umhverfi sé tryggð með öðrum lögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert