Framsóknarflokkurinn fékk liðsauka í gær þegar Ásmundur Einar Daðason alþingismaður gekk til liðs við flokkinn. Ásmundur sagði sig úr þingflokki Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs 14. apríl. Hann hefur síðan starfað sem óháður þingmaður en er nú orðinn tíundi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi.
Ásmundur segir Framsóknarflokkinn hafa tekið mjög jákvæðum breytingum undanfarin tvö ár. „Það hafa orðið breytingar undir núverandi forystu. Það hefur átt sér stað endurnýjun og flokkurinn hefur haldið uppi skynsamlegum málflutningi á mörgum sviðum. Tillögur þeirra til lausnar á skuldavanda heimila og fyrirtækja hafa verið raunhæfar og skynsamlegar. Í baráttunni um Icesave-málið hnikaði flokkurinn aldrei frá grundvallarstefnu sinni sem var að Íslendingum bæri ekki að borga skuldir einkabanka. Framsókn hefur sýnt öflugan málflutning þegar kemur að málefnum landsbyggðarinnar og kynnt ítarlega stefnu í atvinnumálum.
Síðast en ekki síst eru það Evrópusambandsmálin. Framsóknarflokkurinn breytti á síðasta flokksþingi stefnu sinni í Evrópumálum og leggst nú alfarið gegn aðild Íslands að ESB og aðlögunarferlinu. Ég tel að Framsóknarflokkurinn muni taka forystu í þeim málaflokki núna og berjast í fremstu víglínu gegn ESB-aðild. Þessar áherslur eru í fullu samræmi við loforð sem ég gaf kjósendum í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Í þessu starfi langar mig til að taka þátt og í ljósi alls þessa má segja að ég sé kominn heim,“ segir Ásmundur. Hann eigi góða samleið með Framsóknarflokknum nú.
„Vinstri grænir héldu fyrir síðustu kosningar uppi mjög stífum málflutningi á þessum sviðum sem ég hef komið inn á. VG fékk góða kosningu vegna þess að menn trúðu því að það yrðu raunverulegar breytingar og staðið í lappirnar. Við þessu var öllu snúið baki og ég er sannfærður um að það mikla fylgistap sem VG er að verða fyrir núna sé vegna þess að flokkurinn er búinn að snúa baki við svo stórum hluta kjósenda í mörgum grundvallarmálum. Ríkisstjórnin virðist vera að grafa sína eigin gröf. Í hverju málinu á fætur öðru er hún að fara á svig við þjóðarvilja og slíkt getur aldrei verið langlíft.“
Spurður hvort hann muni eiga erfitt með að berjast gegn fyrrverandi flokkssystkinum segist Ásmundur aldrei kvíða málefnalegum slag. „Stjórnmál snúast fyrst og fremst um málefni og ég treysti mér vel til þess að takast á við hvern sem er varðandi þau.“
Ásmundur telur Atla Gíslason og Lilju Mósesdóttur, sem sögðu sig einnig úr VG í vetur, ekki eiga eftir að feta í fótspor hans. „Atli og Lilja gengu út úr VG á öðrum tíma en ég gerði. Við erum góðir félagar en þau verða auðvitað að taka sína ákvörðun í þessu og svara fyrir hvað þau hyggjast fyrir með sína framtíð.“