Aflaheimildir í Fjarðabyggð skerðast um alls 13.300 þorskígildistonn á ári, miðað við 20 ára meðaltalsúthlutun þegar lögin verða komin að fullu til framkvæmda. Þetta jafngildir tvöföldum aflaheimildum Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, sem er eitt þriggja stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna á svæðinu.
Þetta kom fram á blaðamannafundi Útvegsbændafélags Vestmannaeyja og Útvegsmannafélags Austfjarða í Sjóminjasafninu í Reykjavík nú fyrir stundu. Á fundinum kynntu félögin útreikninga um áhrif kvótafrumvarpa ríkisstjórnarinnar í Fjarðabyggð og í Vestmannaeyjum.
Stefán Friðriksson, formaður Útvegsbændafélags Vestmannaeyja, segir frumvörpin beinlínis vera árás á Vestmannaeyjar. Gunnþór Ingvason, formaður Útvegsmannafélags Austfjarða, tekur í sama streng. Hann segir aðdragandann að lagasetningu hafa einn verið skaðlegan fyrir sjávarútveginn.
Ástæðan fyrir því að félögin tvö halda fund í sameiningu er sú að uppsjávarvinnsla er hvergi umsvifameiri en á svæðunum tveimur. Skerðingin, verði frumvörpin að lögum, verður mest á því sviði að sögn forsvarsmanna félaganna.