Fréttaskýring: Opnar vefsíðu um mál Geirs

Landsdómsur.
Landsdómsur. mbl.is/Kristinn

Saksóknari Alþingis hefur opnað vefsvæðið sakal.is, en á vefnum er að finna upplýsingar um málshöfðun Alþingis gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Mál Geirs, sem ákærður er fyrir brot gegn ákvæðum laga um ráðherraábyrgð og hegningarlagabrot til vara, verður þingfest fyrir Landsdómi hinn 7. júní næstkomandi. Þar sem málið er hið fyrsta og eina sinnar tegundar fjallar vefurinn um það eitt. Til samanburðar er lítið sem ekkert fjallað um einstök mál á heimasíðum embætta Sérstaks saksóknara og Ríkissaksóknara.

Eina verkefni saksóknara

Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, segir markmiðið að auðvelda aðgengi fólks að upplýsingum er málið varða og halda þeim til haga á einum stað. Engum vef sé til að mynda haldið úti á vegum Landsdóms og hún viti ekki til þess að það standi til.

„Þetta er náttúrlega eina verkefnið sem saksóknari Alþingis er með. Gögnin í því hafa birst meira og minna öll í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og síðan í þingsályktuninni [um málshöfðun] og skýrslu þingmannanefndarinnar [um niðurstöður Rannsóknarnefndarinnar],“ segir Sigríður. Með tilkomu vefjarins hljótist einnig það hagræði að ekki þurfi sífellt að svara sömu spurningunum, þar sem upplýsingar um til að mynda þinghöld sé þar að finna.

Sigríður segir að þar sem almenningur hafi „eðlilega mikinn áhuga á þessum blessuðu hrunsmálum öllum sé rétt að veita upplýsingar um það hvað þarna er á ferðinni“.

Ekki náðist í Andra Árnason, verjanda Geirs H. Haarde.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka