Tilkynnt hefur verið um 63 hópuppsagnir þessi mánaðamót en til viðbótar upplýsti hugbúnaðarfyrirtækið Teris í gær um 18 uppsagnir. Samanlagt eru þetta því um 80 uppsagnir sem flokkast geta undir hópuppsagnir.
Vinnumálastofnun veitir ekki upplýsingar um hvaða önnur fyrirtæki þetta eru en samkvæmt upplýsingum blaðsins eru þetta litháíska byggingafyrirtækið Adakris, sem sagði upp 31 starfsmanni, Perlufiskur á Bíldudal sagði upp níu manns í landvinnslu og Já.is, sem rekur upplýsingasímann 118 og gefur út símaskrána, tilkynnti 23 uppsagnir. Er það einkum vegna lokunar starfsstöðvar á Akureyri, eins og fram hefur komið.
Haraldur Haraldsson hjá Perlufiski segir fyrirtækið þurfa að taka sumarstopp líkt og í fyrra.
„Svona er það að hafa ekki aflaheimildir nema að litlu leyti. Það er fyrst og fremst óvissan með byggðakvóta og þessi frumvörp sjávarútvegsráðherra sem gera það að verkum að við verðum að stoppa. Það sér hver heilvita maður að ef við eigum að fara að leigja byggðakvótann og kannski að leigja kvóta til að uppfylla skilyrði um byggðakvóta þá gengur það ekkert upp,“ segir Haraldur, en einhver vinnsla verður áfram út júní. Er flest starfsfólk með eins til þriggja mánaða uppsagnarfrest.
Haraldur segir rekstrarumhverfið í sjávarútvegi hafa snarversnað. „Kvótaleigan hefur snarhækkað frá því að við byrjuðum að vinna fisk á Bíldudal. Það er erfiðara að fá kvóta og byggðakvótinn hefur minnkað,“ segir Haraldur.