Aflaheimildir Eyjamanna skerðast um sem svarar til starfa fyrir 150 manns við veiðar og vinnslu, verði fiskveiðistjórnunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar að veruleika. Samtals er um að ræða skerðingu upp á 15.500 þorskígildi á fimmtán árum, þar af 7.500 þorskígildi strax á fyrsta ári.
Þetta kom fram á blaðamannafundi Útvegsbændafélags Vestmannaeyja og Útvegsmannafélags Austfjarða í Sjóminjasafninu í Reykjavík nú fyrir stundu. Á fundinum kynntu félögin útreikninga um áhrif kvótafrumvarpa ríkisstjórnarinnar í Fjarðarbyggð og í Vestmannaeyjum.
Útreikningarnir miðast við 600 þúsund þorskígildi, meðaltal aflaheimilda 14 sjávarútvegsfyrirtækja í Vestmannaeyjum, í tvo áratugi.
Þessi skerðing svarar til samanlagðra aflaheimilda tíu sjávarútvegsfyrirtækja af fjórtán í Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja.