Bankar borgi meira en helming

Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.

„Mér finnst það koma  til greina að skoða aðra skiptingu, að fjármálastofnanir fjármagni stærri hluta en helminginn af þessu, því mér sýnist að bankarnir séu nú að græða ansi vel á fyrsta ársfjórðungi þessa árs," sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi í dag, um fjármögnun almennu vaxtaniðurgreiðslunnar sem skuldarar landsmenn eiga að njóta góðs af í ár og á næsta ári.

Jóhanna var að svara óundirbúinni fyrirspurn Péturs H. Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Pétur greindi frá því að Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ hefði greint þingnefnd frá því að erfitt yrði fyrir samninganefnd ASÍ að samþykkja nýgerða kjarasamninga þann 22. júní næstkomandi, ef ekkert breyttist varðandi fjármögnun lífeyrissjóðanna á vaxtaniðurgreiðslunni.

Hefði Gylfi jafnframt tjáð þingmönnum að það væri lygi að stjórnvöld hefðu haft samráð um málið við ASÍ eða lífeyrissjóðina. Sagði Pétur að það stefndi því í að af þessum sökum myndu kjarasamningarnir rakna upp frá og með febrúar á næsta ári. Í ofanálag kæmu svo kvótafrumvörpin tvö frá ríkisstjórninni, sem einnig mættu mikilli andstöðu aðila vinnumarkaðarins og LÍÚ. Það stefndi því í alvarlega stöðu varðandi kjarasamninga.

Sagði Jóhanna að niðurstaðan hefði verið sú í desember síðastliðnum að bankar og lífeyrissjóðir myndu fjármagna aðgerðirnar. ,,Það var ekki niðurstaða um hvernig yrði farið í þessa fjármögnun af þeirra hálfu. Það er rétt að leita átti samráðs við þær um þetta, en komið hefur fram opinberlega oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að það yrði gert með skattlagningu að einhverju leyti," sagði Jóhanna.

Sagði hún þessa 12 milljarða sem vaxta niðurgreiðslan kostaði, og lífeyrissjóðir muni aðeins standa straum af fjórðungi við, væru ekki mjög háar fjárhæðir í samhengi við hreina eign lífeyrissjóðanna, sem er um 2.000 milljarðar króna. Með öðrum orðum innan við 0,1% af þeirri fjárhæð, og þar að auki tímabundið til aðeins tveggja ára.

Sagði hún skrýtið ef koma þyrfti til skerðingar lífeyrisgreiðslna vegna þessa og að hún trúði því einfaldlega ekki að þetta mál kæmi til með að skemma fyrir kjarasamningunum. Þar að auki kæmi það úr hörðustu átt frá ASÍ að gagnrýna þetta, þar sem ríkið hefði nýverið sett 20 milljarða í að hækka bætur í almannatryggingakerfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert